Saga Þuríðar Hörpu Kafli 2

 

 

Þuríður Harpa

Við hófum í fyrradag að fylgjast með sögu Þuríðar Hörpu hér á Feyki en Þuríður bloggar á síðu sinni oskasteinn.com. Í dag birtum við kafla tvö í sögu Þuríðar og minnum á á sala óskasteinanna er hafin.

 

Loksins kom sjúkrabíllinn, afleysingalæknir skoðaði mig og svo hófu sjúkraflutningamennirnir, sem ég kannaðist vel við, að koma mér á börurnar og hafa mig eins vel skorðað og hægt var. Í sjúkrabílnum gaf læknirinn mér sprautu líklega morfín. Ég þoldi það allsekki og kastaði upp hvað eftir annað - hreint ekki þægilegt. Upp á spítala man ég lítið eftir mér. Man samt að fallega norska ullarpeysan sem mamma gaf mér og anorakkurinn voru klippt utan af mér og svo rándýri hlaupatoppurinn líka. Mér líkaði það ekkert sérstaklega, sá nefnilega eftir fötunum. Meðan beðið var eftir sjúkraflugvélinni skaust Árni heim til að láta krakkana vita hvað hefði gerst og koma þeim fyrir hjá vinum og vandamönnum og taka með sér einhverjar flíkur. Óhappið varð um kl. 19:30 og um 22:30 er ég lent við Landspítalann í Fossvogi, ég var viss um að ég kæmist strax í aðgerð og líklega héldu það fleiri. Ég man voða gloppótt eftir því sem gerðist þarna um kvöldið nema ég fór örugglega í myndatöku og eftir hana var eins og mér væri ekið inn í skurðstofuna. Þar tók læknir á móti mér og sagði að ekkert yrði af aðgerðinni þá um nóttina. Læknirinn sem ætti að gera hana væri þreyttur og betra væri að hann kæmi úthvíldur til aðgerðarinnar daginn eftir. Mér var ekið upp á görgæslu og þar var ég í umsjá engils. Engillinn var kona og heitir Lilja, hún var mér og mínu fólki svo ótrúlega góð og eftir því sem ég hugsa meira um hana verð ég sannfærðari um að sumt fólk sé í raun englar. Ég svaf alla nóttina enda á mjög öflugum lyfjum. Morguninn eftir var ég undirbúin fyrir uppskurðinn, mér var ekið fram og þar var eitthvað af fjölskyldunni minni þar á meðal stóri strákurinn minn og maðurinn minn, auk mömmu og systur minnar, ég man ekki eftir fleirum. Það hefur örugglega verið fólkinu mínu og stráknum mínum rosalega erfitt að sjá mig þarna alla flækta í snúrum og leiðslum sem tengdar voru við allskonar tæki, en mér tókst nú samt að faðma hann að mér og manninn minn og segja fólkinu mínu að það yrði allt í lagi með mig enda var ég bara alveg sannfærð um að mér yrði tjaslað vel saman og að ég myndi verða jafngóð eftir einhvern tíma, nema hvað. Svo var mér rúllað inn í skurðstofuna, þar kynnti skurðlæknirinn sig og svæfingalæknirinn og einhver kandidat sem átti að fá að setja upp æðaleggi eða eitthvað svoleiðis. Ég samþykkti það en eftir að hann var búin að reyna aftur og aftur án þess að hitta á æð bað ég nú bara um að einhver reyndari gerði þetta, líklega tókst þetta því svo var ég svæfð og man eftir að læknirinn taldi niður, ég sofnaði mjög fljótt. 

Gott í dag meira seinna

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir