Saga Þuríðar Hörpu

Þuríður Harpa

Óskasteinaverkefni til styrktar Þuríðar Hörpu er komið á fullt og á heimasíðu verkefnisins www.oskasteinn.com má fræðast um verkefnið, styrkja það og lesa magnað blogg Þuríðar Hörpu þar sem hún rifjar upp slysið og vikurnar þar á eftir.
Feykir.is hefur fengið leyfi hjá Þuríði Hörpu til þess að birta sögu hennar hér inni. Sagan er þó ekki birt í heild sinni og því um að gera að heimsækja síðu Þuríðar. Það er hægt að gera hér en þar bloggar Þuríður líka á sinn einstaka hátt um lífið í hjólastólnum sem er ekki alltaf dans á rósum.

 

-Ég hef oft hugsað um það hvað ómerkileg bylta hafði hörmulegar afleiðingar, ég get varla trúað enn að þetta hafi komið fyrir mig en óhappið gerðist á fallegu vorkvöldi fyrir tveim árum. Það var kvíði í mér þegar ég steig í hnakkinn, einhver óútskýrður hnútur í maganum, ég sat á hrossi sem við höfðum nýlega eignast og teymdi Biskup, minn aðalreiðhest. Við vorum ekki alveg sátt ég og Biskup líklega var hann leiður á mér og hafði sýnt mér frekju undanfarið þegar ég fór á bak, þannig að ég ákvað að teyma hann.  Árni var með þrjá til reiðar og var förinni heitið í Hegranesið þar sem hrossunum yrði sleppt í haga. Þegar kom að gömlu brúnni fórum við af baki og teymdum yfir, Árni hélt í hrossið meðan ég fór í hnakkinn aftur og síðan héldum við af stað upp eftir gamla veginum. Við ætluðum að skipta um hross þegar við værum komin yfir gatnamótin. Árni reið aðeins á undan, en þegar hann var komin yfir veginn og ég var að verða komin yfir tók hrossið sem ég var á viðbragð og ég geysist fram hjá Árna, ég hálfgert dró Biskup með mér en náði ekki að hægja á hrossinu og reyndi að halda í Biskup í þeirri von að mér tækist að hægja á en varð að sleppa þar sem Biskup fylgdi ekki.

Ég var í nýjum hnakk sem ég hafði fengið í afmælisgjöf nokkrum dögum fyrr og fann að ég var mjög laus í honum, ef ég reyndi að taka í tauminn fór hrossið bara upp úr beislinu og varð alveg stjórnlaust, ég prófaði sveigjustopp en hætti strax við þar sem mér fannst ég myndi bara hendast fram fyrir hrossið og undir það svo laus var ég í hnakknum. Ég sá að hrossið stefndi í klettana og mér stóð ekki alveg á sama um það, í klettana vildi ég ekki fara. Ég ákvað að henda mér af baki á grasbala sem ég sá, ég losaði fæturna úr ístöðunum og lét mig gossa. Um leið sukku framfætur hrossins í mýri  og slinkur kom á mig, ég sveif í kollhnís fram og lenti á brjóstbakinu. Allt í einu var ekkert, ég lá einhvernvegin skorðuð og sá fæturna við hliðina á mér, ég var í V. Ég heyrð Árna koma hlaupandi með hrossin og kallaði í hann að ég finndi ekki fyrir fótunum mínum. Árni kraup hjá mér og breiddi yfir mig jakkann, á ég ekki að rétta úr fótunum spurði hann, nei svaraði ég, ég þori ekki að hreyfa neitt, hringdu upp á sjúkrahús. Hann fann símann sinn en mundi ekki númerið þannig að ég bað hann að hringja í 112. Meðan við biðum eftir sjúkrabílnum rifjaðist upp fyrir mér draumur sem mig hafði dreymt 2 árum fyrr. Mig dreymdi að ég sæti á fola sem við áttum og Árni var að temja þá, folinn tryllist í draumnum og rýkur með mig, ég vaknaði upp skelfingu lostinn. Morguninn eftir sagði ég Árna að ég myndi aldrei fara á bak folanum, sama hversu góður hann yrði og ég stóð við það. Folinn var svoldið sérstakur á litinn og þar sem ég lá þarna uppgötvaði ég að hrossið sem ég hafði fleygt mér af var alveg eins á litinn. Hvernig gat ég verið svona blind hugsaði ég, ég var svo ákveðin í að folinn yrði mér óheillagripur að ég spáði ekki í að það sama gæti gilt um önnur hross sem væru alveg eins á litinn. Ég hef líklega verið rosalega hátt uppi því ég lýsti þessu fyrir Árna og svo lækninum og sjúkraflutningamönnunum þegar þeir komu.

Ég skrifa meira um þetta seinna.

Framhald á morgun nú eða hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir