Sæti í úrslitakeppninni gulltryggt í Grafarvogi

Síðasta umferðin í Iceland Express-deildinni í körfubolta var spiluð í gærkvöldi. Tindastólsmenn gerðu sér vonir um sæti í úrslitakeppninni og fyrir leikina voru líkurnar meiri en minni á að það tækist. Eitt var þó ljóst að sigur gegn Fjölni í  Grafarvogi gulltryggði sætið og besta árangur Tindastóls í körfunni síðan 2004. Eftir mikinn barning þar sem heimamenn leiddu lengstum náðu Stólarnir yfirhöndinni þegar máli skipti og sigruðu 83-86 í miklum baráttuleik.

Jafnræði var með liðunum framan af og Stólarnir yfir 10-11. Fjölnismenn spíttu þá í lófana og skriðu framúr og voru yfir 18-14 eftir fyrsta leikhluta. Þeir héldu áfram að ögra Stólunum í öðrum leikhluta og náðu ágætu forskoti, komust í 41-28 en sjö stig í röð frá Isom, Rikka og Helga Viggós komu Stólunum á ný inn í leikinn og staðan orðin 41-35. Síðustu stig hálfleiksins voru Fjölnis og staðan 43-35 þegar leikmenn gengu til búningsherbergja til að ráða ráðum sínum. Í fyrri hálfleik var Visockis drjúgur fyrir Stólana en lítill neisti í Isom sem var raunar hlédrægur í stigaskorinu miðað við reynslu og fyrri störf.

Fjölnisliðið var áfram sterkara á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Kalli skipti í svæðisvörn og þegar hún fór að virka þá small leikur Tindastóls saman. Fjölnir náði 12 stiga forystu 50-38 en þá komu þrír þristar í röð frá Rikka, Isom og Svabba og leikurinn orðinn hnífjafn og spennandi. Tindastólsmenn unnu þriðja leikhluta 22-27 og staðan 65-62 fyrir Fjölni áður en síðasti leikhlutinn hófst.

Og nú var allt í járnum. Munurinn yfirleitt sáralítill og liðin skiptust á um að hafa forystuna þó svo heimamenn væru oftar en ekki skrefinu á undan. Í stöðunni 81-78 var dæmd óíþróttamannsleg villa á Fjölni og Stólarnir nýttu bæði vítaskotin og fengu síðan boltann og Svabbi kom Stólunum yfir 81-82. Helgi Viggós lagaði stöðuna enn frekar með tveimur stigum, Fjölnismenn minnkuðu muninn í eitt stig en það var síðan Cedric Isom sem setti niður 2 vítaskot í lokin og tryggði Stólunum sigurinn og sæti í úrslitakeppninni. Lokatölur 83-86.

Í gærkvöldi átti Visockis fínan leik en Litháinn setti 22 stig og reif niður 14 fráköst. Isom gerði 18 stig, hirti 6 fráköst og átti 13 stoðsendingar. Þá áttu Helgi Viggós, Svabbi, Axel og Rikki ágætan leik en þetta voru þeir sex leikmenn sem mest mæddi á gegn Fjölni.

Kalli þjálfari Jóns var að venju á tánum á hliðarlínunni og jafnvel einum of því Bárður Eyþórs, þjálfari Fjölnis, kvartaði við dómarana að ekki væri hægt að senda boltann í hornið því Kalli væri alltaf fyrir. Í samtali við Feyki sagði Kalli að sínir menn hafi verið lengi í gang og það hafi gætt pínu taugaveiklunar í sóknarleiknum. - Við leituðum mikið inn í á Don sem átti skínandi leik og héldum því áfram út leikinn sem var mjög gott. Í seinni hálfleik hrærðum við svolítið í varnarleiknum og það kom okkur á bragðið.

-Við gerðum okkur grein fyrir því fyrir Snæfellsleikinn að það væru engir aðrir en við sjálfir sem gætum komið okkur í úrslitakeppnina og það höfum við haft að leiðarljósi núna á lokasprettinum. Ég er verulega stoltur af strákunum, liðið hefur verið í mikilli framför í undanförnum leikjum og virkilega gaman að klára þetta á fjórum sigurleikjum. Við tekur úrslitakeppnin gegn frábæru liði Keflvíkinga og við ætlum að selja okkur dýrt í þeim viðureignum. Það getur allt gerst í úrslitakeppninni og við erum hungraðir í meiri árangur loksins þegar þetta er farið að smella saman hjá okkur, sagði Kalli vel sáttur.

Stig Tindastóls: Visockis 22, Isom 18, Svabbi 15, Helgi Viggós 14, Axel 10 og Rikki 7.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir