Sæluvika Skagfirðinga hefst á sunnudag

Sæluvika, lista- og menningarhátíð Skagfirðinga hefst á sunnudag, boðið verður upp á fjölbreytta menningardagskrá víðsvegar um fjörðinn. Sæluvikan er ein elsta menningarhátíð á landinu og nær saga hennar allt aftur til ársins 1874 þegar svonefndar sýslunefndarvikur hófu göngu sína.
Dagskráin er bæði metnaðarfull og glæsileg. Meðal þeirra viðburða sem fara fram á Sæluviku eru listahátíð barnanna, ljósmyndasýningar, tónleikar, leiksýningar, dansleikir og myndlistasýningar. Leikfélag Sauðárkróks mun að þessu sinni sýna leikverkið Fólkið í blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson, í leikstjórn Jóns Stefáns Kristjánssonar. Skagfirski Kammerkórinn heldur tónleika í Frímúrarahúsinu, Rökkurkórinn og Karlakórinn Heimir halda tónleika í Menningarhúsinu Miðgarði ásamt gestakórum. Að tónleikunum loknum mun Hljómsveit Geirmundar halda uppi stuðinu fram eftir nóttu.
Möguleikhúsið mun heimsækja leikskóla- og grunnskólabörn í Skagafirði með sýninguna Alli Nalli og tunglið, Sauðárkróksbakarí býður upp á huggulega útistemningu og óvæntar uppákomur. Málmblásarakvintett Norðurlands og Karlakórinn Heimir halda tónleika í Miðgarði, Kvikmyndahátíð tileinkuð Friðriki Þór og Söngvasæla í Miðgarði, kvikmyndasýningar í Króksbíói og áfram mætti telja. Hægt er að nálgast dagskrá Sæluvikunnar á vefnum: www.visitskagafjordur.is

Sæluvikan verður sett í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki sunnudaginn 25.apríl. Athöfnin hefst kl. 14:00 og er hún liður í atvinnu, mannlífs- og menningarsýningunni Skagafjörður – Lífsins gæði og gleði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir