Risa körfuboltahelgi framundan - 50 leikmenn verða á ferðinni

Það er sannkölluð risakörfuboltahelgi framundan, þar sem barist verður á fjölmörgum vígstöðvum. Meistaraflokkur hefur rimmuna við Keflvíkinga í úrslitakeppninni á fimmtudag, unglingaflokkur getur tryggt sig inn í úrslitakeppnina, minnibolti stúlkna spilar í úrslitafjölliðamóti um Íslandsmeistaratitilinn og 7. og 10. flokkar drengja spila í sínum síðustu mótum í vetur í B-riðli.

Meistaraflokkur spilar sinn fyrsta leik við Keflvíkinga á fimmtudagskvöld og verður hann í Keflavík. Liðin leika svo aftur hér á Sauðárkróki á sunnudagskvöldið. Ef oddaleik þarf á milli liðanna verður hann leikinn á skírdag.

Unglingaflokkur karla á möguleika á því að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni með sigri á ÍR-ingum á laugardaginn. Grindvíkingar unnu Keflavík um daginn eftir framlengingu og það voru akkúrat úrslitin sem þurfti til að opna á þennan möguleika fyrir strákana okkar. Tindastóll og Keflavík sítja nú jöfn í 4. og 5. sætinu með 20 stig, en Tindastóll á leik til góða gegn ÍR-ingum á laugardaginn og hefst leikurinn kl. 15.00.

Minnibolti stúlkna sigraði B-riðilinn í síðustu umferð og spila nú í síðasta móti vetrarins í A-riðli. Þetta síðasta mót er í leiðinni úrslitaumferðin um Íslandsmeistaratitilinn. Mótherjar þeirra verða KR, ÍR, Fjölnir og Keflavík.  Þjálfari stúlknanna er Hrafnhildur Sonja Kristjánsdóttir og hefur hún náð athyglisverðum árangri með stelpurnar en lið þeirra er eingöngu skipað stúlkum úr einum árgangi, eða 6. bekk. Þar hefur orðið fjölgun í vetur og mikil stemning í herbúðum liðsins fyrir lokaumferðina.

10. flokkur drengja keppir hér heima í B-riðli. Árangur þeirra hefur verið góður í vetur, en aðeins þrír leikmenn eru úr 10. bekk í liðinu, restin eru strákar úr 9. flokki og jafnvel 8. flokki einnig.  Þjálfari strákanna er Kári Marísson.

7. flokkur drengja keppir í B-riðli í Njarðvík. Hákon Már Bjarnason hefur tekið við þjálfun liðsins og þar á bæ ætla menn að standa sig í mótinu og ljúka síðustu umferðinni í Íslandsmótinu með stæl.

Það verður því af nægu að taka í körfuboltanum um helgina og búast má við að um 50 leikmenn verði á ferðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir