Opið bréf til stjórnmálamanna Íslands
Reykjavík 30.mars 2010
Kæru landsmenn til sjávar og til sveita. Undanfarið ár hefur verið stórbrotið og án efa það róstusamasta í sögu lýðveldisins. Bankar hafa hrunið og fyrirtæki lent í öldurótinu. Stjórnmálamenn takast á næstum daglega í hinum og þessum miðlum og hver bloggarinn á fætur öðrum veltir vöngum yfir ástandinu. Óvissan er gríðarleg og enginn virðist vita hvað morgundagurinn muni bera í skauti sér. Niðurskurðurinn er allstaðar, fólki er sagt upp og þjónusta er skert eða lögð niður.
Börnin horfa upp á foreldra sína endurskipuleggja lifnaðarhætti fjölskyldunnar og hlutir sem þóttu þarfaþing eru allt í einu ekki mikilvægir lengur. Ný forgangsröðun er því hafin á heimilum landsins og í sveitarfélögum þess. Hvar ætli heimilin skeri niður? Gæti farið svo að foreldrar neyðist til að skera niður tómstundir barna sinna?
Auðvitað er mismunandi hvernig endurskipulagningunni er háttað en staðreyndin er sú að margir ungir einstaklingar gætu lent í því að þurfa að hætta íþróttaiðkun sinni, tónlistarnámi og/eða öðru skipulögðu tómstundastarfi vegna breytts fjárhags heimilisins.
Hvað tekur þá við þeim?
Á Íslandi eru reknar 114 félagsmiðstöðvar samkvæmt vef samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi (Samfés). „Hlutverk þeirra er að bjóða upp á opið faglegt félagsmiðstöðvastarf fyrir ungmenni sveitafélaganna með uppeldis- og menntunarívafi. Þar fer fram uppbyggilegt starf undir handleiðslu fagmanna. Skipuleggja uppbyggilegt og skemmtilegt frístundastarf fyrir börn, unglinga og ungmenni, þar sem gildi virkrar þátttöku, uppeldis, óformlegs náms og forvarna eru í fyrirrúmi.“(heimild starfsskrá ÍTR) . Starfið stendur öllum til boða og sérstaklega er hugað að því að virkja einstaklinga sem eiga undir högg að sækja vegna fötlunar eða félagslegra aðstæðna. Til að mynda er hugað að því að hafa starfið að mestu ókeypis svo allir hafi jafna möguleika á að sækja það. Starf sem þetta er mikilvægt fyrir unga einstaklinga sem standa á krossgötum í lífi sínu og þurfa að velja og hafna ýmsu áreiti sem á þá steðjar, svo sem notkun vímuefna. Forvarnargildi tómstundastarfs er án alls efa gríðarlegt. Fjölmargir fræðimenn hafa unnið rannsóknir sem renna stoðum undir þá fullyrðingu en má þar nefna: Hawdon, Hirschi, Jón Gunnar Bernburg og Þórólf Þórlindsson.
Á unglingsaldrinum gerist það oftast hjá unglingum að dyr opnast að heimi fullorðna fólksins sem leiðir það af sér að börn eiga á hættu að taka rangar ákvarðanir. Þá er mikilvægt að unglingar hafi athvarf þar sem þau geta komið saman og unnið að sínum hugðarefnum undir handleiðslu fagfólks.
Nú þegar sveitafélög lýðveldisins þurfa að bregða upp niðurskurðarhnífnum verður erfitt að forgangsraða hvar hann skal koma niður. Við tómstundafræðinemar við Háskóla Íslands lýsum hér með áhyggjum okkar yfir því að félagsmiðstöðvastarf á Íslandi gæti orðið fyrir hnífnum þar sem tómstundastarf er ekki lögbundið.
Við, tómstundafræðinemar við Háskóla Íslands, skorum því á menntamálaráðherra að standa vörð um æskuna, huga að æskulýðslögunum og lögbinda tómstundastarf á vegum sveitafélaga. Einnig hvetjum við sveitarstjórnir lýðveldisins til að huga að æskunni með því að hlúa að frístundastarfi sínu og opna skólakerfið fyrir því þar sem við á.
Með kveðju
F.H Tómstunda-og félagmálanema við Háskóla Íslands
Anna Björt Sigurðardóttir, Guðrún Lilja Guðmundsdóttir, Linda Björk Pálsdóttir, Magnús Sigurjón Guðmundsson og Tinni Kári Jóhannesson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.