Ofsafengin viðbrögð
Lesendur Morgunblaðsins hafa orðið þess varir að LÍÚ er nú komið í áróðursstríð gegn stjórnvöldum vegna fyrirætlana um breytingar á hinu illræmda „kvótakerfi“ sem svo er kallað. Sú var tíðin að Mogginn var í fararbroddi þeirra sem vöruðu við afleiðingum kvótakerfisins, en nú eru augljóslega aðrir tímar á Morgunblaðinu, enda aðrir eigendur teknir við.
Ofsafengin viðbrögð
Heilu opnurnar í blaðinu hafa nú verið lagðar undir þessa skipulögðu áróðursherferð útvegsmanna, og hefur hún tekið á sig ýmsar myndir.
Ein birtingarmyndin eru yfirlýsingar frá aðskiljanlegum sveitarstjórnum undir forystu sjálfstæðismanna víðsvegar um landið, þar sem varað er við „fyrningarleiðinni“ svokölluðu. Þar inni á milli hafa verið klofnir meirihlutar (einhverskonar klofningsminnihlutar) sjálfstæðis- og framsóknarmanna - en það er önnur saga.
Já, menn hrópa „hrun“ yfir sjávarútveginn í landinu verði fyrningarleiðin farin, og gefa 6,5 ár - nákvæmt skal það vera. Þar með muni fiskveiðar leggjast af við Íslands strendur. Þeir tala eins og verið sé að hramsa frá þeim þeirra lögmætu „eign“ og „þjóðnýta“ hana eins og það er orðað.
Þannig hafa viðbrögðin við fyrirhugðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu verið líkari ofsafengnu ofnæmislosti en eðlilegum varnarviðbrögðum. Enda fær fátt staðist í þessum málflutningi útvegsmanna, sé nánar að gætt.
Förum nú yfir nokkur atriði í rólegheitum.
Þjóðin á fiskinn í sjónum
Í 1. gr. Fiskveiðistjórnunarlaga segir:
„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar ... Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“
Það er m.ö.o. þjóðin sem á fiskinn í sjónum. Útgerðin hefur nýtingarrétt á þessari auðlind, en vilji löggjafans varðandi eignarhaldið er alveg skýr.
Fiskveiðar munu að sjálfsögðu ekki leggjast af þó að ríkið gefi útgerðinni kost á að afskrifa árlega tiltekið hlutfall aflaheimilda - þó að stofnaður verði auðlindasjóður þaðan sem veiðiheimildum verður ráðstafað til framtíðarnota fyrir útgerðina í landinu.
Innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki „umbylting“ á þessu kerfi og mun ekki leiða „hrun“ yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn, hófsöm og löngu tímabær leiðrétting á þessu óréttláta kerfi, sem hefur í sér innbyggða meinsemd og mismunun.
Gleymum ekki úrskurði Mannréttindanefndar SÞ um að núverandi kvótakerfi sé brot á mannréttindum og hindri eðlilega nýliðun.
Gleymum því ekki að í þessu kerfi eru menn tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna.
Þetta er kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur, en hafa síðan verið meðhöndlaðar sem hvert annað erfða- og skiptagóss. Ef útgerðarmaður deyr eða ákveður að selja og flytja, situr byggðarlag eftir í sárum. Fiskveiðiheimildirnar horfar úr þorpinu, og lífsafkoma fiskvinnslufólksins þar með. Þetta eru raunveruleg dæmi sem komið hafa upp.
Kvótakerfið er bara eins og hver önnur mannasetning - enda ekki nema um tveggja áratuga gamalt. Þetta kerfi var illa ígrundað í upphafi. Það leiddi af sér alvarlega röskun og atvinnubrest í heilum byggðarlögum. Sá atvinnubrestur risti á sínum tíma mun dýpra en það atvinnuleysi sem nú ógnar almenningi á suðvesturhorninu.
Yfirskuldsettur sjávarútvegur
Síðast en ekki síst, felur þetta rangláta kerfi í sér samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust. Sjávarútvegurinn skuldar 400-500 milljarða króna - verulegur hluti skuldanna liggur hjá erlendum kröfuhöfum. Í talnabálkum sem birtir voru í kveri sem LÍÚ sendi út fyrir síðustu kosningar má sjá að atvinnugreinin mun aldrei geta staðið undir þessum skuldum.
Nærtækt er að álykta sem svo að þarna liggi raunveruleg ástæða þess hversu tíðrætt útgerðarmönnum hefur orðið um „hrun“ og yfirvofandi „gjaldþrot“ í greininni. Ástæðan er nefnilega ekki fyrirhuguð fyrningarleið. Ástæðan er geigvænleg offjárfesting á umliðnum árum, þar með ofurskuldsetning, þar með ofurveðsetning. Þetta er hin napra staðreynd.
Ákefðin í umræðunni um fyrningarleið kann hinsvegar að vera ákjósanlegt skálkaskjól til þess að fela óþægilegar staðreyndir um stöðu sjávarútvegsins - stöðu sem útvegsmenn hafa sjálfir komið sér í án íhlutunar stjórnvalda.
Verjum þjóðareignina
Nú loksins, stendur til að leiðrétta hið rangláta kvótakerfi. Það er vel.
Það er hinsvegar sorglegt að íslensk þjóð skuli á erfiðum tímum þurfa að verja eign sína og forræði yfir fiskimiðunum fyrir ásælni útgerðarinnar. Að hún skuli þurfa að verja sig fyrir þeim aðilum sem áratugum saman hafa notið gæðanna af þjóðarauðlindinni og gengið um hana eins og þeir ættu hana, þvert á anda og fyrirmæli laga.
Fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu eru eitt mesta réttlætismál í íslenskku samfélagi um þessar mundir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.