Nýtt pósthús á Sauðárkróki

Nýja póstihúsið: Mynd: Skagafjörður.com

Íslandspóstur opnar í dag nýtt pósthús að Ártorgi 6, Sauðárkróki. Opnunin er hluti af áætlunum Íslandspósts að reisa 10 ný pósthús ásamt því að endurbyggja á öðrum stöðum víðs vegar um landið.

Er þetta  fimmta nýja pósthúsið á landsbyggðinni sem Íslandspóstur byggir frá grunni, á eftir Húsavík, Reyðarfirði, Stykkishólmi og Akranesi. Nýju pósthúsin munu auka til muna þjónustu við viðskiptavini sem og bæta verulega vinnuaðstöðu starfsfólks. Skóflustungan að nýja pósthúsinu var tekin fyrir rúmu ári síðan eða þann 8. maí 2008.

Í nýju húsnæði er boðið upp á aukna þjónustu til að koma til móts við breyttar þarfir viðskiptavina.  Hér er meðal annars átt við sölu á ýmiskonar vörum eins og skrifstofuvörum, ritföngum, pappír, geisladiskum, póstkortum, gjafakortum og öðru sem mikilvægt er fyrirtækjum, einstaklingum og ferðalöngum.

Í nýjum pósthúsum eru  „Samskiptaborð“, sem eru nýjung í þjónustu Póstsins. Þar er í boði netaðgangur, mögulegt er að prenta út gögn og ljósmyndir, skanna og ljósrita svo eitthvað sé nefnt. Einnig gefst viðskiptavinum kostur á að panta aðra þjónustu Samskipta á pósthúsunum og fá senda um hæl.

Í tilefni af opnuninni mun Pósturinn bjóða til hátíðar laugardaginn 30. maí frá kl. 13-15 í nýja pósthúsinu að Ártorgi 6.  Þar verður boðið upp á grillaðar pylsur, skemmtiatriði og leiktæki fyrir börnin auk þess sem gestum verður boðið að skoða nýja húsnæðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir