Nú var kátt í Síkinu!
Tindastólsmenn byrjuðu leikinn ágætlega, Rikki var sjóðheitur og kom Stólunum í 7-3. Keflvíkingar eru hins vegar ekki neinir byrjendur í faginu og lækkuðu rostann í heimamönnum með nokkrum nettum 3ja stiga körfum eins og þeir væru að smyrja brauð. Mest náðu þeir 8 stiga forystu, 14-22, en Stólarnir klóruðu í bakkann og þegar leikhlutinn var úti var staðan 18-24.
Rikki og Visockis voru drjúgir hjá Stólunum en Isom var ekki að finna taktinn og mátti þola alls kyns leiðindi af höndum gestanna. Keflvíkingar voru sterkir í upphafi annars leikhluta og um miðjan leikhlutann var staðan 30-39. Í nokkur skipti virtust Stólarnir vera að komast á fullu inn í leikinn en Keflvíkingar voru klókir og beittu bolabrögðum sem þeir framkvæmdu svo lipurlega að dómararnir sáu ekki til. Tindastólsliðið virtist ætla að láta þetta slá sig út af laginu, sérstaklega var Isom ósáttur, og Keflvíkingar juku muninn enn, komust í 35-49. Kalli ákvað að kæla Helga Viggós örlítið þó svo kappinn væri ekki enn kominn með villu, inn í hans stað kom Svabbi og sá var ekki lengi að finna sig, setti niður 5 næstu stigin. Hörður Vilhjálmsson svaraði með 3ja stiga körfu en kappinn var iðinn við 3ja stiga kolann. Það var hins vegar föðurbróðir Svabba, Rikki, sem kórónaði góðan leik sinn í fyrri hálfleik með 3ja stiga flautukörfu úr horninu og fyrir vikið var átta stiga munur á liðunum, 43-51.
Munurinn hélst þetta 6-10 stig í upphafi þriðja leikhluta en þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum fékk Isom sína þriðju villu. Skömmu síðar fékk hana fjórðu villu sína og Sigmar tók stöðu hans á meðan Isom hvíldi. Ekki leist stuðningsmönnum Tindastóls á blikuna en Sigmar virtist alveg óttalaus og lét reynda Keflvíkinga ekki stöðva sig. Smá saman saxaðist á forskot gestanna en Hörður var óstöðvandi og sá til þess að Stólarnir kæmu ekki of nálægt. Keflvíkingar fengu hins vegar slatta af villum og þegar leið að lokum þriðja leikhluta voru þrír Keflvíkingar komnir í villuvandræði. Staðan 70-78 þegar fjórði leikhluti hófst.
Svabbi byrjaði með stórskotahríð, setti niður tvær 3ja stiga körfur í röð og allt í einu var munurinn orðinn tvö stig, 76-78. Stemningin hafði verið ágæt í Síkinu en nú tók fólk heldur betur við sér. Hörður svaraði með 3ja stiga körfu og Isom kom aftur inn í lið Stólanna en hann var alveg ískaldur fyrir utan og gekk illa að skora. Keflvíkingar komust í 81-87 þegar innan við fimm mínútur voru eftir af leiknum en þá kom frábær kafli hjá Stólunum, vörnin fór alveg að svínvirka enda leikmenn og áhorfendur gjörsamlega að springa af æsingi og Keflvíkingar virtust slegnir út af laginu. Isom minnkaði muninn í 83-87, Rikki gerði síðan 2 stig, gestirnir náðu ekki að skora og Rikki setti niður þrist og kom Stólunum yfir í fyrsta skipti síðan á upphafsmínútum leiksins, staðan 88-87. Burns, sem var seigur í leiknum, kom gestunum yfir en Isom svaraði að bragði og Keflvíkingar ákáðu að taka leikhlé. Burns kom Keflvíkingum aftur yfir en Helgi Viggós svaraði sallarólegur með skoti utan úr teig. Þegar 1 mínúta og 20 sekúndur voru eftir fékk Isom sína fimmtu villu og þá héldu nú flestir að þetta hefði verið stutt gaman og gengur bara betur næst. Sérfræðingar í stúku vildu sjá Axel koma inn en Kalli var kaldur karl (og hraustur) og setti guttann inn aftur og hann gerði einu körfuna það sem eftir lifði leiks - og hún var bara grín. Vörn Tindastóls gaf fá færi á sér í lokin og Keflvíkingar urðu að játa sig sigraða í hörkuleik, lokatölur 94-91.
Þetta var auðvitað bara gaman og strákarnir voru bæði hetjur og jarlar í kvöld. Rikki var alveg í banastuði og setti niður 12 af 16 skotum sínum og var með 25 stig. Þrír leikmenn gerðu 17 stig en það voru; Svavar sem spilaði þó aðeins tæpar 20 mínútur, Visockis sem var að auki með 14 fráköst og loks Isom en hann var örugglega manna kátastur með úrslitin eftir að hafa klikkað á öllum 3ja stiga skotum sínum í leiknum (þó hann hafi sennilega hitt úr öllum upphitunarskotum fyrir leikinn). Í vörninni voru Axel og Helgi Viggós sterkir að vanda og seigir í sókninni, Helgi Margeirs átti ágæta spretti og sennilega eru flestir stuðningsmenn Stólanna til í að taka ofan fyrir Simma eftir kvöldið.
Keflvíkingar mæta að líkindum dýrvitlausir til leiks í oddaleikinn sem fram fer í Keflavík en Stólarnir hafa engu að tapa og eiga sannarlega meira inni.
Stig Tindastóls: Rikki 25, Svavar 17, Isom 17, Visockis 17, Axel 7, Helgi Viggós 5, Helgi Margeirs 4 og Simmi 2.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.