Molduxamót um helgina

Á laugardaginn næsta verður haldið í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki hið svokallaða Molduxamót 2010 þar sem glaðbeittar körfuboltahetjur sem komnir eru af allra léttasta skeiði hvaðanæfa af landinu munu taka þátt. Molduxarnir lang sigurstranglegastir.

Síðast þegar litið var á þátttökulistann höfðu 8 karlalið skráð sig til þátttöku og von var á að fleiri bættust við. Keppt verður bæði í karla og kvennaflokkum og einnig gefst einstaklingum kostur á að skrá sig. Eitthvað virðist þó hið lögboðna kynjahlutfall vera í ólagi því auglýst hefur verið sérstaklega eftir konum á besta aldri vegna ónógrar þátttökuskráningar. Eru þær hér með skyldaðar til að skrá sig svo ekki komi til lögsóknar á hendur mótshöldurum.

Að sögn hinna hugprúðu Molduxa fer ekki mikið fyrir körfuboltaæfingum þessa dagana þar sem þeir  eru fullnuma í þeim fræðum heldur hafa menn snúið sér að gerbakstri og gervíettubrotum til að undirbúa snarlið eftir mót.

Að sjálfsögðu verður kvöldvaka eftir mótið og er rétt að minna á að ef lið eða einstaklingar hafa eitthvað skemmtilegt fram að færa, skemmtiatriði, sögur, brandar, ræður (ekki of langar samt) dans, söng eða bara eitthvað á kvöldvökunni, þá er það velkomið. Vona Uxarnir að menn séu á fullu við að æfa skemmtiatriðin sín, því þar fer aðal keppnin fram að venju !

Þeir sem vilja berja frægustu körfuboltahetjur landsins augum ættu að taka laugardaginn frá en keppni hefst stundvíslega kl. 12.00

Sjá nánar á Molduxar.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir