Metaðsókn í Stólinn

Myndin er tekin í Tindastól í vetur

Veturinn sem leið var skíðafólki í Tindastóli afar hagstæður hvað varðar færð og veður. Metaðsókn var á skíðasvæðið og framkvæmdahugur í mönnum fyrir komandi misseri.
Að sögn Viggós Jónssonar staðarhaldara á skíðasvæði Tindastóls komu 7263 gestir í vetur og er það fjölgun úr 5500 gestum árið áður.

Skíðasvæðið opnaði 30. október á síðasta ári og því var lokað þann 20. apríl s.l. en að sögn Viggós var það ekki vegna snjóleysis heldur hættir fólk að koma þegar svo langt er liðið á vorið. Viggó telur það skipta miklu að byrja fyrr á haustin og er stefnt að því næsta haust en þá verður reynt að fara í það að laga og jafnvel fjölga snjógirðingum.

Viggó segist sjá fyrir sér að skíðasvæðið verði með starfssemi á ársgrundvelli í framtíðinni og hefur skíðadeildin óskað eftir viðræðum við Sveitarfélagið Skagafjörð til að fara yfir stöðu mála á skíðasvæðinu.

-Það stendur starfseminni fyrir þrifum aðstöðuleysi en húsakostur er of lítill fyrir þá starfsemi sem á sér stað nú þegar,segir Viggó.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir