Meirihluti á endastöð ?
Sveitastjórn Skagafjarðar mun funda klukkan 16:00 í dag en á dagskrá fundarins er tillaga frá sveitarstjórnarfulltrúum Framsóknar um viðbyggingu við Árskóla. Athygli vekur að hinn meirihlutaflokkurinn, Samfylking, styður ekki tillöguna.
Aðdragandi málsins er sá að báðir meirihlutaflokkarnir höfðu á stefnuskrá sinni að byggja við Árskóla en fyrir sl. sumar bauð Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, fyrir hönd KS sveitarfélaginu að lána fyrir verkinu vaxtalaust þar til önnur úrlausn fengist.
Í aðsendri grein sem Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir skrifar í Feyki sem kemur út í dag upplýsir Gréta Sjöfn um að tillaga Framsóknar gangi út á það að svetastjórn samþykki að hefja framkvæmdir og jafnframt áfangaskipta verkinu þar sem byggingarnefnd Árskóla verði falið að leiða þá vinnu og þá verði sveitastjóra falið að klára viðræður við Kaupfélag Skagfirðinga um verk- og fjármögnunarsamninga.
Áætlaður kostnaður við verkið er 1,4 milljarðar króna og segir Gréta Sjöfn í grein sinni að það að fara af stað með verkið án þess að unnin sé vönduð áætlanagerð þar sem fram komi hvaða áhrif byggingin hafi á rekstur og þjónustu um ókomin ár sé fullkomlega óábyrgt.
Gréta Sjöfn telur jafnframt rétt að þetta stórt mál verði saltað fram yfir kosningar. Einungis séu 9 vikur til kosninga og því væri nær að málið yrði á forræði næsta meirihluta.
Sveitastjórnarfulltrúi VG hefur lýst sig andvígan viðbyggingu við Árskóla á þessum tíma og það sama hefur oddviti Sjálfstæðimanna gert. Örlög málsins munu því velta á atkvæðum Sigríðar Björnsdóttur og eða Gísla Sigurðssonar fulltrúum Sjálfstæðisflokks. Það er kjósi þau að fara gegn oddvita sínum.
Leiða má að því líkur að með útspili sínu séu Framsóknarmenn að kynna sitt aðal kosningamál.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.