María Björk og Hilda Jana taka við stjórnartaumum N4

María Björk Ingvadóttir og Hilda Jana Gísladóttir hafa tekið við framkvæmdastjórn fjölmiðlafyrirtækisins N4.  N4 rekur sjónvarp, Dagsskrá og framleiðsludeild á Akureyri en hjá fyrirtækinu starfa 17 manns.

Í fréttatilkynningu segir að þær hafi báðar unnið hjá fyrirtækinu um nokkurra ára skeið og í sameiningu stýrt N4 undanfarna tvo mánuði með mjög góðum árangri. María Björk er framkvæmda- og rekstrarstjóri og Hilda Jana framkvæmda- og sjónvarpsstjóri.

Ennfremur segir að N4 hafi lagt áherslu á að hafa jafnvægi í umfjöllun sinni milla karla og kvenna og að sögn Jóns Steindórs Árnasonar,formanns stjórnar N4, að með ráðningu kvennanna vilji stjórnin undirstrika kraft kvenna og trú á hæfni Hildu Jönu og Maríu Bjarkar og þykir stjórninni það sérstaklega við hæfi á þessu ári, þegar þess er minnst að 100 ár eru liðin frá því íslenskar konur fengu kosningarétt.

„Stefna N4 er metnaðarfull og miðar að því að bjóða áhorfendum sínum upp á vandað efni frá öllum landshlutum, auk þematengdra þátta eins og þátta um orkumál og málefni landbúnaðar og sjávarútvegs. Við vitum að fyrirtækið er í góðum höndum kvennanna tveggja,“ segir Jón Steindór.

María Björk hefur áralanga reynslu af starfi í fjölmiðlum, m.a. sem starfsmaður RÚV auk mikillar reynslu af rekstri á opinberum markaði og einkamarkaði. Áður en hún hóf störf hjá N4 var hún í allmörg ár sviðsstjóri yfir frístundum Svf. Skagafjarðar. Þar áður stofnaði hún og rak Kaffi Krók. María Björk er menntuð sem félagsráðgjafi.

Hilda Jana hefur starfað í fjölmiðlum síðustu 15 árin, m.a. sem fréttamaður á Aksjón, RÚV og Stöð 2. Frá árinu 2009 hefur hún starfað á N4 sem dagskrárstjóri og hefur átt drjúgan hlut í því að koma fyrirtækinu á þann stað sem það er í dag. Hún var árið 2014 tilnefnd til Edduverðlaunanna í flokki sjónvarpsmanns ársins og árið á undan var þáttasería sem hún gerði „Auðæfi hafsins“ tilnefnd til Edduverðlauna í flokki frétta- og viðtalsþátta ársins. Hilda Jana er kennaramenntuð frá Háskólanum á Akureyri.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir