Málstofan í frí fram á haust
Síðasta föstudag fór fram í Verinu á Sauðárkróki síðasta málstofan í bili þegar Hólmfríður Sveinsdóttir fór yfir rannsóknir sínar sem hún vann og notaði í doktorsvörn sína sem hún varði fyrir skömmu.
Rannsóknirnar líta að því að kanna áhrif umhverfis á þorsklirfur en á því þroskastigi seiða er dánartíðni há í þorskeldi á Íslandi.
Rannsóknirnar eru mjög mikilvægar fyrir næsta skref í þorskeldi þar sem fundið er út hvað lirfurnar eru að éta og hvað vantar í fóðrið en þær virðast helst drepast úr sýkingum og jafnvel svelti. Mikilvægi rannsóknanna er ekki síst að kynnast tækninni við rannsóknirnar og söfnun gagna í gagnagrunn, segir Hólmfríður en Norðmenn eru komnir mun lengra í þorskeldinu en Íslendingar en erfitt reynist að komast að þeirra aðferðum þar sem þeir halda þeim leyndum fyrir samkeppnisaðilum.
Að sögn Gísla Svan Einarssonar framkvæmdastjóra hjá Veri Vísindagörðum hefur málstofan gengið mjög vel í vetur en reynt var að hafa hana á hálfsmánaðar fresti. Í haust verður þráðurinn tekinn upp á ný og málstofan opnuð og ættu bæjarbúar og aðrir að kynna sér hvað verið er að vinna að á sviði tækni og vísinda en margt forvitnilegt hefur komið fram á þessum fundum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.