Lundabringur og kjúklingur í aðalrétt

Árni Birgir Ragnarsson var matgæðingur Feykis í maí 2008 og bauð hann upp á léttsteiktar lundabringur með malti og bláberjasósu í aðalrétt.

  • Forréttur:
  • Smálúðu-sashimi  
  •  
  • 400 gr. fersk smálúða
  • 10 gr. svört sesamfræ
  • ½ dl. sesamolía
  • 1 dl. ólífuolía
  • 20 gr. ferskt kóríander
  • 50 gr. ristaðar furuhnetur
  • Sjávarsalt
  •  
  • Aðferð:
  • Smálúðan er hreinsuð og skorin í þunnar sneiðar og raðað á disk. Ólífuolía, sesamolía og sesamfræ sett í pott og hitað þar til hiti er  u.þ.b.40°C. Olían má alls ekki verða of heit því þá eldast lúðan of mikið. Olíunni er svo hellt yfir fiskinn. Ristuðum furuhnetum og kóríander stráð yfir ásamt dálitlu sjávarsalti.
  •  
  • Aðalréttur
  • Léttsteiktar lundabringur
  •  
  • 6 lundar, úrbeinaðir frá skipinu
  • Salt og pipar
  • 30 gr. smjör til steikingar
  • Ferskt blóðberg (ekki nauðsynlegt)
  • 2 bollar maltöl eða maltbjór
  • 1 bolli rjómi
  • ½ bolli bláber, helst íslensk
  • 1 tsk. anda- eða nautakraftur
  • 20 gr. smjör
  •  
  • Mikilvægt er að hreinsa alla fitu af lundanum sem og þær himnur sem hægt er að plokka af áður en hafist er handa við eldamennskuna. Þá eru lundabringurnar kryddaðar með salti, pipar og blóðbergi, sem er pillað af greinunum. Pannan hituð vel. Smjörinu er skellt á pönnuna og bringurnar steiktar á henni í u.þ.b. 50 sek. á hvorri hlið. Bringurnar eru teknar af pönnunni og maltinu hellt út á pönnuna og það soðið niður um helming. Þetta kemur með sætuna í sósuna. Þá er rjómanum bætt út í maltið og leyft að sjóða niður um helming. Sósan er krydduð með anda- eða nautakraftinum. Þegar sósan er komin í þá þykkt sem þykir heppileg, er lunda-bringunum bætt út í ásamt smjöri og bláberjum. Leyfið þessu að sjóða í um 1 mín. við meðalhita og veltið pönnunni svolítið til svo þetta blandist vel. Gott er að skreyta diskinn með blóðberginu.
  •  
  • Aðalréttur tvö
  • Sterkur karrý kjúklingur
  •  
  •             1 kjúklingur
  •             1 peli rjómi
  •  
  •             Kryddlögur:
  •             3 dl. tómatsósa
  •             3 tsk. karrý
  •             3 tsk. pipar
  •             1 tsk. salt
  •  
  • Kjúklingurinn er skorinn í bita, velt upp úr kryddleginum og settur í eldfast mót. Settur í 200°C heitan ofn og eldaður í 30 mín. Kjúklingurinn tekinn út og rjómanum hellt yfir hann og eldaður í aðrar 30 mín. Kjúklingurinn er borin fram með hrísgrjónum og rjóminn sem hellt var yfir, er sósan sem er sett á hrísgrjónin.
  •  
  •  
  • Pönnukökur
  • með ís og grand mariner
  •  
  • Búið til pönnukökur úr venjulegu pönnukökudegi, nema hafið deigið þykkt svo þær verði þykkar.
  • Setjið 2-3 kúlur af ís í hverja pönnuköku. Leggið saman í hálfmána og setjið á disk. Hellið grand mariner yfir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir