Lionskonur á Sauðárkróki taka til hendinni

 Fyrsta miðvikudag í júni hittumst við Lionskonur úr Lionsklúbbnum Björk, í pollagöllum og gúmmístígvélum, vopnaðar hrífum og ruslapokum. Gengum við með Sauðánni frá Litlaskógi og  langleiðina niður að Tjarnartjörn og týndum rusl úr ánni og meðfram henni.

 

 Þetta var fjórða árið í röð sem við gerum þetta og má því segja að þetta sé orðin hefð hjá okkur. Fyrstu tvö árin var mun meira rusl í ánni en nú, t.d. voru engin umferðarmerki eða reiðhjól í ár en alltaf er töluvert af timbri, stórum ruslapokum og alls konar plastpokum og nú voru líka símaskrár, námsbækur ofl. Þetta er gert í samráði  við starfsmenn sveitarfélagsins sem leggja til ruslapoka og lána hrífur, þeim sem ekki eiga, síðan er ruslið hirt daginn eftir. Þetta er framlag okkar Lionskvenna til fegrunar umhverfisins og  er í ofanálag mannbætandi fyrir sálartetrið á krepputímum sem og öðrum tímum.

Agnes Hulda Agnarsdóttir stolt Lionskona.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir