Lilja Karen sigurvegari Framsagnarkeppninnar

Fyrir helgi fór fram í Félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi. Keppendur voru 7. bekkingar úr Höfðaskóla, grunnskólanum á Blönduósi, Húnavallaskóla og Grunnskóla Húnaþings vestra. 

Keppnin sem tileinkuð er Grími Gíslasyni, fréttaritara, hestamanni og bónda frá Saurbæ í Vatnsdal, var hörð og  jöfn en dómnefnd, sem í sátu meðal annars tvö börn Gríms Gíslasonar, varð að lokum sammála um að Lilja Karen Kjartansdóttir úr Grunnskóla Húnaþings vestra hefði staðið sig best.

Albert Óli Þorleifsson varð í öðru sæti og Benedikt Axel Ágústsson í því þriðja. Báðir eru strákarnir úr Grunnskólanum á Blönduósi. Hlutu sigurvegararnir peningaverðlaun frá Sparisjóðnum á Hvammstanga auk viðurkenningarskjals. Lilja Karen mun varðveita farandskjöld, sem Grímur Gíslason gaf til keppninnar, fram að næstu keppni að ári. Allir keppendurnir fengu síðan tvenn bókaverðlaun.

/Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir