Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir Fylgd eftir Guðbrand Ægi Ásbjörnsson
Leikfélag Sauðárkróks alheimsfrumsýnir nýtt leikrit Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar í kvöld, sem hann leikstýrir einnig. Fjöldi laga, eftir skagfirska höfunda, er í leikritinu sem samin voru sérstaklega fyrir verkið. Leikritið heitir Fylgd og er skírskotun í þjóðþekkt lag og ljóð og var Ægir spurður út í nafngiftina ásamt öðru er viðkemur leikritinu.
„Fylgd, af því að lagið, sem er eftir Didda fiðlu (Sigurð Rúnar Jónsson) og ljóðið, sem Guðmundur Böðvarsson samdi, kveikti hjá mér hugmyndina um leikverkið. Formaður leikfélagsins kom að máli við mig fyrir nokkrum árum og hvatti mig til þess að semja verk fyrir félagið. Ég var búinn að vera að hugsa um leikritasmíð í svolítinn tíma og var kominn með hugmynd en var svo óheppinn að tölvunni var stolið er ég var að ferðast með fjölskyldunni á Spáni. Þegar ég var að rifja upp það sem ég hafði verið að skrifa um, heyrði ég þetta lag og það kom mér á sporið aftur. Fyrir utan að fjalla um fjölskyldu þá fjallar verkið um heimahagana og mikilvægi þess að kippa ekki stoðum undan samfélaginu. Mest er þetta samt á léttu nótunum,“ segir höfundurinn sem áður hefur komið að því að semja leikrit fyrir Leikfélag Sauðárkróks og fékk fádæma góða dóma.
„Í leikritinu Tifar tímans hjól, frá 2013 sem ég samdi upp úr sögu eftir okkur Árna Gunnarsson, notaði ég heilmikið af lögum og eingöngu Geirmundar Valtýssonar. Flest þeirra laga voru áður útkomin og textarnir ekki endilega eftir skagfirska höfunda. Í Fylgd nota ég líka mikið af lögum. Nú eru langflest lögin og textarnir sérstaklega samin fyrir verkið eða tólf talsins en fyrir utan lagið Fylgd eru tvö önnur lög sem heyrst hafa áður. Annað þeirra Kveðjustund er í sérstöku uppáhaldi hjá mér en það samdi móðir mín fyrir Sönglagakeppni kvenfélagsins árið 1963 við texta Guðrúnar Gísladóttur. Hitt er hið kunna Skál og syngja.“
Það eru sem sagt tólf ný skagfirsk lög og tólf nýir skagfirskir textar í verkinu og segist Ægir svo heppinn að eiga marga góða vini og félaga og hafa skáld úr þeim hópi fúslega dregið fram tóna og texta listinni til heilla. „Færi ég þeim mínar hjartans þakkir fyrir. Það er von mín að áhorfendur njóti sýningarinnar og sem flestir sjái hana og heyri en það er ekki á hverjum degi sem færi gefst á að hlusta á svo mörg ný skagfirsk lög. Að lokum vil ég þakka Leikfélagi Sauðárkróks fyrir gott samstarf og það mikla traust sem mér er sýnt.“
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.