Leið ehf. krefst vegstyttinga

Leið ehf. hefur gert kröfu um að á grundvelli nýlegra vegalega mæli Skipulagsstofnun svo fyrir að veglína skv. hugmyndum Vegagerðarinnar verði tekin inn í skipulag í Austur Húnavatnssýslu og Skagafirði og  það auglýst þannig en ekki án vegarins þótt stjórnir sveitarfélaganna hafi fyrir sitt leyti kosið að hafna honum.

Hér að neðan má lesa texta úr frétt á vef Leiðar ehf um málið.

Ályktað með og móti Svínavatnsleið (Húnavallaleið) - athugasemd send Skipulagsstofnun

Á fundi bæjarstjórnar Blönduósbæjar 9. febrúar 2010 og hreppsnefndar Húnavatnshrepps 18. mars 2010 voru samþykktar ályktanir gegn tillögu Vegagerðarinnar um að gert verði ráð fyrir svonefndri Húnavallaleið eða Svínavatnsleið í tillögum sveitarfélaganna að nýju aðalskipulagi þeirra, sem nú er til lokameðferðar. Sama hefur sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagastrandar gert. Sjá ályktanirnar hér að neðan.

Stjórn Eyþings, sem er samband sveitarfélaganna í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, samþykkti á hinn bóginn nýlega svohljóðandi ályktun varðandi hugmyndir að styttingu Hringvegarins milli Norðaustur- og Suðvesturlands:
"Stjórn Eyþings tekur undir sjónarmið Vegagerðarinnar um að Húnavallaleið (Svínavatnsleið) og ný veglína í Skagafirði verði settar á aðalskipulag viðkomandi sveitarfélaga. Umræddar veglínur leiða til mikilvægrar styttingar á Hringveginum. Stjórnin minnir á samþykkt frá aðalfundi Eyþings 2009 um að skoðaðir verði ítarlega möguleikar á styttingu Hringvegarins milli Norðausturlands og Suðvesturlands."

Senn kemur á borð Skipulagsstofnunar að fjalla um tillögu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps að aðalskipulagi sveitarfélaganna þar sem Vegagerðin hefur óskað eftir að gert verði ráð fyrir Húnavallaleið (Svínavatnsleið). Af því tilefni hefur Leið ehf. ritað stofnuninni bréf og farið þess á leit að hún áskilji að hugmynd Vegagerðarinnar að Húnavallaleið verði sett inn í auglýsingu sveitarfélaganna og tillaga þeirra að aðalskipulagi kynnt þannig.
Er það á grundvelli skýrra ákvæða 2. mgr. 28. gr. vegalagna nr. 50/2007 þar sem segir:
"Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstyðja það sérstaklega. Þó er sveitarfélagi óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar ef það leiðir til minna umferðaröryggis en tillagan felur í sér. Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.
Þetta ákvæði verður ekki skilið á annan hátt en þann að ef tillaga Vegagerðinnar leiðir til aukins öryggis umferðarinnar frá því sem ella væri sé sveitarfélagi skylt að taka hana til greina og gera ráð fyrir henni í tillögum sínum að aðalskipulagi, sem væntanlega fer fljótlega í opinbera auglýsingu. Að mati Leiðar ehf. verður ekki undan þessu vikist enda ljóst að leið sem er allt að 14 km styttri en núverandi leið um Hringveginn og verður til að umferðin kemst um á 17 km nýjum vegi hönnuðum skv. nýjustu stöðlum í stað um 25 km á mun eldri og mjórri vegi og beinir umferð ekki meðfram þéttbýli hlýtur að teljast að mun öruggari fyrir jafnt vegfarendur og íbúa auk þess að leiða til margháttaðs annars ávinnings. Ef bæjarstjórn Blönduóss óttast minni umsvif á Blönduósi vegna minnkaðrar umferðar má minna á að hugmyndir Leiðar ehf. ganga út á að veggjöld yrðu heimt af þeim sem nýttu sér veginn sem án vafa leiddi til þess að áfram yrði talsverð umferð um Blönduós sem ella færi hinn nýja veg auk þess sem ekki þyrfti að fjármagna hann úr ríkissjóði.
Má gera ráð fyrri að málinu verði fylgt fast eftir af hálfu Leiðar ehf. en ekki hefur reynt beint á þetta ákvæði vegalaga við auglýsingu skipulags svo vitað sé.

Hér að neðan má sjá ályktanir þeirra þriggja sveitarfélaga sem nefnd eru og lagst hafa gegn því að gert verði ráð fyrir Húnavallaleið í aðalskipulagi Blönduósbæjar og Húnavatnshreppa.

Fundargerð bæjarstjórnar Blönduósbæjar 9. febrúar 2010:

"3. Bréf frá Vegagerðinni frá 15. janúar 2010.
Lagt fram bréf dags. 15. janúar 2010 ásamt fylgigögnum frá Auðunni Hálfdánarsyni, deildarstjóra Vegagerðarinnar í Borgarnesi, varðandi aðalskipulag Blönduósbæjar 2010-2022. Í bréfinu eru lagðar fram tillögur um breytingar á vegum í fyrrum Refasveit og lagningu Húnavallavegar austan Blöndu í Langadal.
Forseti lagði fram tillögu að eftirfarandi bókun:
"Vegagerðin leggur fram tillögu að nýjum stofnvegi, Húnavallaleið, milli Brekkukots í Húnavatnshreppi og Skriðulands í Blönduósbæ án lögmælts samráðs við bæjarstjórn Blönduósbæjar. Í gildandi Svæðisskipulagi Austur-Húnavatnssýslu 2004-2016 er ekki gert ráð fyrir nýjum stofnvegi í sýslunni. Í drögum að aðalskipulagi 2010-2022 hefur bæjarstjórn Blönduósbæjar ekki ráðgert nýjan stofnveg innan marka sveitarfélagsins. Bæjarstjórn Blönduósbæjar fer með stjórn skipulagsmála innan sveitarfélagsmarka. Tillaga Vegagerðarinnar felur það í sér að færa Blönduósbæ úr alfaraleið. Slík tillaga gengur þvert gegn stefnu bæjarstjórnar. Afstaða bæjarstjórnar er skýr og getur hún enganvegin fallist á tillögu Vegagerðarinnar. Blönduósbær er mikilvæg þjónustumiðstöð fyrir íbúa Austur-Húnavatnssýslu og löng hefð fyrir þjónustu við vegfarendur. Falli Blönduósbær úr alfaraleið mun það hafa alvarleg og neikvæð
byggða-, efnahags- og samfélagsleg áhrif.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu Vegagerðarinnar um breytingu á núverandi Skagastrandarvegi og Þverárfjallsvegi enda er það í samræmi við gildandi svæðisskipulag. Þá telur bæjarstjórn eðlilegt að Ennisbraut verði samþykkt sem tengivegur."
Tillagan var samþykkt 7:0"
Úr fundargerð Sveitarfélagsins Skagastrandar 3. mars 2010:

"...Samgöngumál:
Sveitarstjórn Skagastrandar mótmælir hugmyndum Vegagerðarinnar um breytta
veglínu í gegnum A-Húnavatnssýslu með svokallaðri Húnavallaleið. Sveitarstjórn
minnir á að að í gildandi svæðisskipulagi A-Húnavatnssýslu 2004-2016 er ekki gert ráð
fyrir nýjum stofnvegi á þessu svæði."

Úr fundargerð sveitarstjórnar Húnavatnshrepps 18. mars 2010:

"...k) Frá Vegagerðinni, dags. 15. janúar 2010.
(frestað frá fundi hreppsnefndar þann 2. febrúar s.l.)
Efni: Tillaga frá Vegagerðinni um veglínu á nýjum stofnvegi, Húnavallaleið, milli
Brekkukots í Húnavatnshreppi og Skriðulands í Blönduósbæ.
Sveitarstjóra falið að svara erindinu og vísa til greinargerðar í aðalskipulagi Húnavatnshrepps 2010-2022, þar sem erindinu er hafnað. .."

Nálgast má kort þar sem lega hins vegar er sýnd á vef Vegagerðarinnar hér: http://www.facebook.com/pages/Reykjavik-Iceland/Vegagerdin/203825747511?ref=ts#!/photos.php?id=203825747511

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir