Leggja til breytta fiskveiðistjórnun
Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður er fyrsti flutningsmaður að frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi í gær, þar sem kveðið er á um breytta aðferð við útreikning á jöfnunaraðgerðum, ívilnunum og uppbótum í fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Eins og fyrirkomulagið er í gildandi lögum leiðir það til þess að þeir sem hafa hlutfallslegu mestu aflahlutdeildirnar í fjórum fisktegundum, þorski, ýsu, ufsa og steinbít, taka á sig mestu skerðingarnar þegar kvótum er úthlutað til línuívilnunar, byggðakvóta, rækju og skelbóta og strandveiða. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir því að allir þeir sem fá úthlutað kvóta þurfi að leggja af mörkum hlutfallslega jafn miklar aflaheimildir.
Þetta leiðir til þess að hlutfallsleg skerðing aflaheimilda verður jafn mikil og áður að meðaltali. Hins vegar er ljóst að þeir sem í dag eru að taka á sig allt að 5% skerðingu aflaheimilda sinna munu taka á sig talsvert minni skerðingu ef frumvarpið verður að lögum.
Mál þetta er orðið enn brýnna en áður vegna þeirra strandveiða sem áformað er að lögfesta síðar á þessu þingi. Fram hefur komið að áhrif strandveiðilaganna verða þau að skerða þarf aflaheimildir í þorski hjá aflamarks og krókaaflamarksbátum um 3,4% til viðbótar við 5,3% skerðingu sem nú er í gildi. Að óbreyttu mun þessi skerðing ekki bitna á þeim sem ekki hafa aflaheimildir í þorski.
Í greinargerð með frumvarpinu segir um þessi mál:
„Þau álitaefni sem hér er fjallað um hafa oft verið til umræðu. Nú er komið að því að leiða
þau til lykta með sanngjörnum hætti. Það tilfærslufyrirkomulag sem er í fiskveiðistjórnarlögunumog hér er gert að umræðuefni hefur að sönnu verið umdeilt. Það er hins vegar tilstaðar og hefur meðal annars byggðalegan tilgang. Allir stjórnmálaflokkar hafa með einum eða öðrum hætti komið að gerð þess lagaverks sem skapar grundvöll þess. Tilgangur þessa frumvarps er að skipa fyrirkomulagi þess með sanngjarnari hætti en nú er.“
Flutningsmenn málsins, auk Einars Kristin Guðfinnssonar, eru þingmennirnir Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson.
/ Fréttatilkynning.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.