Laugarbakkinn – sagnasetur opnar í Grettisbóli á morgun
Sveitamarkaður með sögualdartengdu handverki og matvælum úr héraði verður haldinn að Grettisbóli, Laugarbakka í Miðfirði um helgar í sumar. Markaðurinn opnar núna á laugardaginn, 27. júní kl.13 og verður opinn laugardaga og sunnudaga 13 – 19, fram yfir miðjan ágúst.
Markaðurinn er liður í verkefninu Laugarbakkinn – sagnasetur og er samstarfsverkefni Grettistaks, Bardúsu, Ferðamálafélags Vestur-Húnavatnssýslu, Reykjahöfða og ýmissa áhugasamra einstaklinga og hópa. Verkefnið miðar að því að byggja upp á Laugarbakka fjölbreytta starfsemi byggða á menningararfinum, sögnum, fornu handverki, náttúruauðlegð, matarmenningu og fleira.
Byggt er á þeim grunni sem fyrir er, starfsemi sem ofangreindir aðilar hafa byggt upp undanfarin ár og áratugi og vilja í samvinnu þróa áfram.
Á markaðnum verða í boði vörur sem eru úr héraði og hafa einhvers konar tilvísun í menningararfinn. Handverk/heimilisiðnaður sem byggir á hráefni úr héraði og fornum hefðum og minnum og matvæli sem unnin eru úr heimafengnu hráefni og byggja að hluta á gömlum hefðum... en flest fært í nútímabúning.
Auk markaðarins verður í sumar boðið upp á ýmis konar uppákomur s.s. námskeið um sagnaarfinn, fornbúningasaum, torfhleðslu o.fl, leiki fyrir börn og fullorðna, sögustundir, kraftakeppni og fleira og fleira. Það er von þeirra sem að verkefninu standa að íbúar Húnaþings og ferðafólk á svæðinu heimsæki Grettisból og njóti menningararfleifðar í nútímabúningi.
Verkefnið er styrkt af Menningarráði N.v., Vaxtarsamningi N.v. og Saga Capital
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.