Kór Menntaskólans í Reykjavík á Norðurlandi

Kór Menntaskólans í Reykjavík verður á faraldsfæti á Norðurlandi um næstu helgi. Fimmtudagskvöldið 25. mars kl. 20.00 syngur kórinn tónleika í Hóladómkirkju en þaðan verður ferðinni heitið til Akureyrar.

Á Akureyri syngur kórinn föstudaginn 26. mars tónleika í Ketilshúsinu auk þess að láta í sér heyra víðar um bæinn þann daginn. Tónleikarnir í Ketilshúsinu hefjast kl. 20.00. Síðustu tónleikar kórsins í þessari ferð syngja menntskælingar í Þorgeirskirkju við Ljósavatn. Þessir tónleikar verða laugardaginn 27. mars og hefjast kl. 16.00.

 Á dagskrá kórsins eru kirkjuleg og veraldleg verk, bæði íslensk og erlend. Þar er að finna útsetningar úr íslenskum söngarfi eftir Róbert A. Ottóson, Smára Ólason, Hjálmar H. Ragnarsson og Árna Harðarson.  Af öðru má nefna verk eftir Báru Grímsdóttur, Hildigunni Rúnarsdóttur og Finn Torfa Stefánsson.

Í þessari ferð kórsins verða u.þ.b. 40 söngvarar, stjórnandi kórsins er Guðlaugur Viktorsson einnig kunnur sem söngvari og stjórnandi annarra kóra.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis en frjáls framlög í ferðasjóð kórsins eru vel þegin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir