Kirkjugarður frá fyrir 1100 finnst á Hofi í Vatnsdal
Við fráveituframkvæmdir á Hofi í Vatnsdal nú nýlega fannst mikið af fornum mannabeinum, bæði af fullorðnum og börnum. Um er að ræða heillegar beinagrindur sem fundust á tæplega 2 metra dýpi skammt frá íbúðarhúsunum á Hofi.
Vitað er að kirkja var á Hofi á miðöldum, en ekkert var vitað um staðsetningu hennar þar til hugsanlega nú.
Að sögn Þórs Hjaltalíns minjavarðar Norðurlands Vestra, en hann og hans fólk hafa gert frumrannsóknir á staðnum, eru grafir þessar síðan fyrir árið 1100 og eru beinin ótrúlega heilleg. Gerir hann sér vonir um að með meiri rannsóknum megi vonandi finna rústir kirkjunnar og staðsetja hana. Auk þess sé ómögulegt að segja hvað fleira muni koma í ljós, hugsanlega séu einhverjar þessar grafir síðan í heiðni, fyrir kristnitöku. Rétt er að minna á að Hof er landnámsjörð Ingimundar Gamla eins og segir frá í Vatnsdælasögu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.