Keflvíkingar gáfu leikinn
Fyrirhuguðum körfuboltaleik Tindastóls og Keflavíkur sem vera átti í dag var aflýst nú í morgun vegna innbyrðis deilna í stjórn Keflavíkurliðsins. Tindastóli dæmdur sigur.
-Þetta er með ólíkindum, sagði Karl Jónsson þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við þessum óvæntu fréttum. –Það urðu einhverjar meiriháttar deilur milli stjórnar og leikmanna Keflavíkurliðsins sem endaði með því að leikmenn neituðu að spila leikinn. KKÍ neitaði að fresta leiknum og því var okkur dæmdur sigurinn, segir Karl sem bæði var ánægður með stigin en svekktur yfir að hafa ekki fengið að spila leikinn þar sem prófa átti nýtt leikkerfi sem Rúnar Gíslason hafði hannað og er að sögn sérfróðra manna alveg skothelt.
–Ég er alveg 100% viss um að með þessu kerfi hefðum við unnið leikinn, segir Karl en það kemur þá til góða í þeim viðureignum sem eftir er enda er það hannað með þau lið í huga sem eftir standa í keppninni. Karl segir að ef fólk vilji sjá hvernig kerfið virkar ætla strákarnir í Tindastólsliðinu að vera með æfingu kl. 2 í dag í Íþróttahúsinu og allir þeir sem hafa áhuga á geta fylgst með. Íþróttafréttamenn hafa boðað komu sína til að líta þessa hugarsmíð Rúnars augum en spáð hefur verið að kerfið gæti gjörbylt íslenskum körfubolta.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.