Jónsmessuhátíð á Hofsósi hefst í dag
Jónsmessuhátíðin á Hofsósi hefst í dag með Jónsmessugöngu, niður í móti, undir leiðsögn Kristjáns Snorrasonar, sem á Hofsósi er betur þekktur undir nafninu Tittur í Túni.
Að sögn Kristjáns Snorrasonar höfði einhverjir áhyggjur af því að hann væri ekki maður í að leiða svona göngu en frænka hans hafði haft það á orði að fyrst að Kristján gæti gengið þetta gætu það allir. Niðurstaðan er sem sagt sú að um lauflétta göngu verður að ræða og að öllum líkindum verður mikið hlegið í göngunni.
Að lokinni göngunni getur göngufólk og aðrir gestir gætt sér á kjötsúpu í Höfðaborg. Klukkan 22:00 í kvöld verður síðan flutt söngdagkráin Sönglög á Jónsmennsu auk þess sem Upplyfting mun halda uppi stuðinu fram eftri nóttu.
Á morgun hefst dagskrá um 10:30 með Smalakeppni Svaðamanna. Þá er Kvennahlaup, knattspyrna, leiktæki og skemmtiatriði á sínum stað í dagskránni. Dagskráin nær síðan hámarki annað kvöld með stórri grillveislu og að lokum balli með Geirmundi.
Á sunnudag geta síðan þreyttir hátíðargestir endað helgina á helgistund í Grafarkirkju.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.