Í nógu að snúast hjá Lögreglunni

Lögreglan á Sauðárkróki hafði í nógu að snúast um páskahelgina en meðal þeirra verkefna sem hún hafði með höndum var m.a. eftirlit með umferð um héraðið og ástand ökumanna kannað sem var til fyrirmyndar utan eins.

Að kvöldi skírdags lenti ökumaður í vandræðum vegna ófærðar og var björgunarsveit send til að aðstoða hann.  Eitthvað þótti björgunarsveitarmönnum athugavert við ökumanninn og létu þeir lögreglu vita.  Ökumaðurinn var stöðvaður stuttu seinna á Þverárfjallsvegi og við rannsókn kom í ljós ökumaðurinn var með fíkniefni í fórum sínum.  Einnig bar ökumaðurinn merki þess að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.  Tekin voru blóðsýni til frekari rannsóknar og var bifreiðin færð á lögreglustöðina.  Þegar ökumaðurinn hugðist sækja bifreiðina tveim dögum síðar þótti ástæða til að kanna ástand hans og kom þá í ljós að hann var enn óhæfur til aksturs.  Lögreglan á Sauðárkróki naut aðstoðar lögreglunnar á Blönduósi við þetta mál og var fíkniefnaleitarhundur notaður við leit í bifreiðinni.

Tilkynnt var um fimm umferðaróhöpp á tímabilinu.  Var þar helst um að ræða tjón á ökutækjum og minniháttar eymsli.  Ökumaður missti vald á bifreið sinni á Skagfirðingabraut með þeim afleiðingum að hún lenti á mannlausri bifreið, eignatjón.  Hliðarspeglar bifreiða rákust saman er þær mættust í Hegranesi, ekki náðist í annan ökumanninn sem ók af vettvangi.

Tilkynnt var um útafakstur á Vatnsskarði og fóru lögreglumenn til aðstoðar.  Ekki fannst bifreiðin þrátt fyrir nokkra leit en í samtali við ökumann hennar kvaðst hann skammt vestan Varmahlíðar.   Við nánari skoðun kom í ljós að bifreiðin hafði hafnað utan vegar fáeina kílómetra austan Blönduóss og kom lögreglan á Blönduósi ökumanninum til aðstoðar.

Nokkuð var um að ökumönnum var veitt aðstoð vegna ófærðar og voru bæði lögregla og björgunarsveit á ferðinni vegna þessa bæði innan – og utan þéttbýlis.

Skemmtanahald var með hefðbundnum hætti þessa daga og fór það vel fram og hafa ekki komið nein mál inná borð lögreglu vegna þess.

Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn um hálf tvö aðfaranótt sunnudags þar sem sést hafði til hans sparka í bifreiðar.  Í ljós kom að hann hafði unnið tjón á þrem bifreiðum.  Maðurinn reyndist ölvaður og fékk hann að gista fangaklefa.  Hann var síðan látinn laus eftir að hann hafði sofið úr sér áfengisvímuna og skýrsla hafði verið tekin af honum.

/logreglansaudarkroki.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir