Hvöt úr leik í bikarnum
Frekar kalt var í veðri er Hvöt tók á móti liði Breiðabliks í Visa-bikarkeppni KSÍ í 32-liða úrslitum karla í gærkvöldi. Norðan vindur og ekki margar gráður á hitamælinum.
Hvatarmenn hófu leikinn og áttu nokkrar ágætar sóknir fyrstu 10 mínúturnar en það var einmitt á þeirri elleftu sem Milan skaut í stöng Breiðabliksmarksins og þar slapp Sigmar Ingi Sigurðsson, markvörður Breiðabliks, með skrekkinn. Eftir þetta sóttu Blikar mjög að marki Hvatar en án árangurs og var staðan í hálfleik 0-0.
Ekki voru liðnar nema 27 sekúndur af síðari hálfleik er Nezir, markvörður Hvatar, þurfti að taka honum stóra sínum og sýndi hörkumarkvörslu en það var ekki í fyrsta né síðasta skiptið sem Nezir tók á því í markinu. Á 62. mínútu átti Muamer gott hlaup upp hægri kantinn sem lauk með því að hann átti gott skot sem endaði í hliðarnetinu á mark Blika. Enn þyngdist sókn Breiðabliks og þeir uppskáru síðan mark á 69. mínútu er Guðmann Þórisson skoraði eftir eina af fjölmörgum hornspyrnum Blika í leiknum. Eftir þetta skiptust liðin á að sækja þótt að sóknir Blika væru mun hættulegri en heimamanna.
Seinna mark gestanna kom á 89. mínútu eftir enn eina hornspyrnuna er Elfar Freyr Helgason skoraði og bikardraumur heimamanna varð að engu. Hvatarmenn áttu þó síðustu færi leiksins er Milan komst einn í gegnum flata vörn gestanna en hann lét Sigmar í marki Blikanna verja frá sér og mínútu seinna átti Óskar Snær gott skot á mark gestanna en þeir björguðu í horn. Eftir það flautaði ágætur dómari leiksins, Þóroddur Hjaltalín jr. til leiksloka
/Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.