Hvöt mætti ofjörlum sínum

Grótta og Hvöt áttust við á Seltjarnarnesi um helgina og má segja að dagurinn hafi verið erfiður hjá Hvatarmönnum en þeir þurftu að sækja boltann sex sinnum í eigið markið.

Samkvæmt Fótbolti.net setti rigning mikið mark á leikinn hvort sem það var úrhelli að himnum ofan eða markaregn á vellinum, en mörkin urðu alls níu talsins.

Leikurinn fór vel að stað fyrir heimamenn og á 5. mínútu var Pétur Már Harðarson búinn að koma Gróttu yfir. Hann fékk góða sendingu inn á vítateig Hvatar frá Sölva Davíðssyni, snéri af sér einn varnarmann og setti boltann í netið framhjá Nezir Ohran í marki Hvatar.

Á 31. mínútu bætti Grótta við sínu öðru marki. Aftur var það Pétur Már Harðarson sem skoraði, en núna með skalla eftir hornspyrnu frá Sigurvini Ólafssyni. Á 42. mínútu minnkaði svo Muamer Saikovic svo muninn fyrir gestina. Þegar hröð skyndisókn þeirra virtist vera að renna út í sandinn kom Milan Lazarevic boltanum aftur inn í teig þar sem Muaner Sadikovic skallaði boltann í netið.

Staðan var því 2-1 í hálfleik þar sem heimamenn voru búnir að beittari aðilinn. Einhver töf var á hálfleiknum þar sem annar aðstoðardómarinn meiddist og redda þurfti nýjum í skyndi.

Gestirnir komu sterkir inn í seinni hálfleik og á 51. mínútu voru þeir búnir að jafna leikinn. Þar var að verki Milan Lazervic eftir sendingu inn fyrir vörn Gróttu frá Brynjari Guðjónssyni. En Milan kláraði færið mjög vel. En Gróttumenn náðu aftur forystunni þegar Guðmundur Hannesson skallaði boltann í netið á 62. mínútu. Aftur kom mark eftir hornspyrnu Sigurvins.

En gestirnir gáfust ekki upp og aftur náðu þeir að jafna leikinn. Þeir fengu aukaspyrnu á miðju vallarins sem Gissur Jónason tók skjótt og sendi boltann fram. Þar misreiknaði varnarmaður Gróttu sig og hitti ekki boltann sem varð til þess að Milan Lazerevic komst einn í gegn og skoraði örugglega fram hjá Kristjáni Finnbogasyni.

Staðan því orðin 3-3 og leikurinn í járnum og aðeins 15 mínútur eftir. En á 80. mínútu kom ótrúlegur leikkafli hjá heimamönnum þar sem þeir kláruðu leikinn.

Á 82. mínútu fékk Grótta horn og aftur kom Sigurvin með eitraðan bolta inn í teig. Ásgrímur Sigurðsson skallaði boltann að marki Hvatar sem Nezir varði en boltinn datt fyrir fætur Sölva Davíðssonar sem kom boltanum yfir marklínuna. Grótta fékk svo aukaspyrnu út á kanti á miðjum vallarhelming Hvatarmanna á 86. mínútu. Enn og aftur kom Sigurvin með eitraðan boltann inn í teiginn sem Einar Óli Þorvarðarson, nýkominn inn á sem varamaður, stangaði í markið.

Gróttumenn voru ekki hættir því aðeins tveim mínútum síðar var staðan orðinn 6-3. Ásmundur Haraldsson, spilandi þjálfari Gróttu, fékk þá boltann í fætur inn á teig gestina, eftir sendingu frá Sölva Davíðssyni, snéri af sér einn varnarmann snyrtilega og kláraði færið með tánni. Leikurinn endaði því með 6-3 sigri Gróttu, eftir ótrúlegan endasprett heimamanna. Í leik þar sem 4 af 6 mörkum Gróttu komu eftir föst leikatriði tekinn af Sigurvini Ólafssyni og regnið dundi niður allan tímann.

Hvöt situr nú í 3. sæti með 11 stig, jafnmörg og Grótta en með lakara markahlutfall.
/Fótbolti.net

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir