Hvöt í toppbaráttunni
Lið Hvatar á Blönduósi hefur byrjað vel í annari deildinni í sumar og deilir nú öðru sætinu með Gróttu Seltjarnarnesi með átta stig eftir fjóra leiki. Hvöt sigraði Víði Garði á laugardaginn með tveimur mörkum gegn einu á útivelli.
Á vef Hvatar er umfjöllun frá leiknum skrifað af Davíð Inga Magnússyni:
Í Garðinum mættust heimamenn í Víði liði Hvöt frá Blönduósi í fjórðu umferð annarrar deildar Íslandsmótsins. Völlurinn var mjög háll en annars logn og smá úði í loftinu.
Á 12 min. leiksins spýttist boltinn undir bakvörð Hvatar, Stefán Hafsteinsson og Björn Ingvar sóknarmaður Víðis slapp einn í gegn en Nezir Ohran í marki Hvatar varði vel í horn.
Hinu megin átti Aron Bjarnason skalla að marki Víðis eftir hornspyrnu á 14 min..
Það var svo á 17 min. sem boltinn barst út fyrir teig Víðis þar sem Óskar Snær Vignisson sóknartengiliður Hvatar fékk boltann og setti knöttinn með hægri í stöng og inn. Óverjandi fyrir Rúnar Þór Daníelsson markvörð og fyrirliða Víðis.
Fjórum min. síðar átti Egill Björnsson frábæra sendingu inn fyrir á Milan Lazarevic sem sólaði Rúnar Þór í marki Víðis en náði ekki að koma boltanum í autt markið.
Á 27 min. kom hár bolti utan af hægri kanti þar sem Axel Ingi var mættur og skallaði boltann í boga yfir markmann Hvatar og í fjærhornið. Mjög vel gert hjá Axel sem er í láni frá Fylki í sumar.
Á 32 min. átti Gissur Jónasson fyrirliði Hvatar hörkuskalla í hliðarnetið eftir hornspyrnu.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks lenti Jón Björgvin Hermannsson miðjumaður Hvatar í samstuði og lá óvígur eftir. Ekki er ljóst hvort Jón Björgvin verði lengi frá en það yrði mikil blóðtaka fyrir Hvöt ef hann verður lengi frá.
1 -1 var staðan í hálfleik.
Á 57 min. átti Lazarevic góða sendingu þar sem Muamer Sadikovic kom á hlaupinu en skot hans var rétt yfir.
Tveimur mínútum síðar áttu leikmenn Hvatar gott spil sem endaði með því að Óskar Snær átti hörkuskot sem markmaður Víðis varði mjög vel í horn.
Á 62 min. komst Björn Ingvar inn fyrir vörn Hvatar en gott skot hans var varið.
Á 66 min. dró heldur betur til tíðinda. Þá komst Þorsteinn Þorsteinnson sóknarmaður Víðis inn fyrir vörn Hvatar en Aron Bjarnason kom til varnar. Við það féll Þorsteinn og dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu. Atli Rúnar Hólmbergsson tók vítið og skaut knettinum neðst í hægra hornið en Nezir Ohran í marki Hvatar gerði sér lítið fyrir og varði boltann glæsilega.
Hér má segja að vendipunktur leiksins hafi verið.
Á 79 min. fékk Brynjar Guðjónsson knöttinn fyrir utan teig Víðis eftir horsnpyrnu, prjónaði sig í gegnum vörn heimamanna og þrumaði knettinum upp í þaknetið. Frábærlega vel gert og staðan orðin 1-2 fyrir gestina frá Blönduósi.
Síðustu tíu mínútur leiksins lágu gestirnir undir þónokkuð mikilli pressu og sóknarmaður þeirra Þorsteinn Þorsteinsson komst einn í gegn í tvígang en voru mislukkaðar fætur í bæði skiptin.
Hvöt stóðst því síðustu áhlaup heimamanna og unnu að lokum góðan útisigur, eitt mark gegn tveimur. Hvöt eru því ósigraðir í deildinni og eru með 8 stig en Víðir er einungis með 2 stig að loknum fjórum umferðum.
Maður leiksins: Nezir Ohran í marki Hvatar. Varði víti á úrslitastundu í leiknum og var mjög öruggur í öllum sínum aðgerðum.
Skot:
Víðir: 12 – Hvöt: 10
á mark:
Víðir: 7 – Hvöt: 4
Horn:
Víðir: 6 – Hvöt: 8
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.