Hvöt 1 - 1 BÍ/Bolungarvík

Fótbolti.net segir frá því að Lið Hvatar og Bí/Bolungarvíkur mættust í fínu knattspyrnuveðri á Blönduósvelli í gær en viðureign liðanna endaði 1 - 1.

Leikurinn byrjaði fjörlega og strax á 4 mínútu small knötturinn í stöng gestanna eftir að Aron Bjarnason, leikmaður Hvatar hafði átt góða sendingu fyrir sem varnarmaður BÍ/Bolungarvík fékk í sig og þaðan í stöngina. Gestirnir stálheppnir að lenda ekki marki undir strax á upphafsmínútunum.

Á níundu mínútu gerðu Hvatarmenn sig aftur líklega þegar Óskar Snær Vignisson slapp einn í gegn eftir sendingu frá Milan Lazarevic en Róbert Óskarsson markvörður BÍ/Bolungarvíkur gerði vel í að verja.

Á 16. mínútu fékk BÍ/Bolungarvík sitt fyrsta færi og það var ekkert smá færi. Sóknarmaður þeirra slapp einn í gegn og hann náði að vippa boltanum yfir Nezir Ohran markmann Hvatar en lukkulega fyrir Hvöt lenti boltinn ofan á slánni og yfir markið. Sannkallað dauðafæri.

Tíu mínútum síðar eða á 26. mínútu átti Milan Lacarevic skalla að marki BÍ/Bolungarvíkur sem markmaður BÍ/Bolungarvíkur varði í horn.

Á 32. mínútu átti Lazarevic svo sendingu fyrir markið þar sem Óskar Snær átti skalla en markvörður BÍ/Bolungarvíkur greip boltann vel.

Það var svo á 37 mínútu sem Goran Vujic skoraði fyrsta mark leiksins. BÍ/Bolungarvík fékk hornspyrnu sem leikmönnum Hvatar mistókst að hreinsa frá og Vujic sem virtist leggja boltann fyrir sig með hendinni og skoraði auðveldlega framhjá markverði Hvatar.

Á 43. mínútu dró svo heldur betur aftur til tíðinda. Þá slapp Óskar Snær einn í gegnum vörn BÍ/Bolungarvíkur manna eftir glæsilega sendingu frá Jóni B. Hermannssyni. Óskar var felldur af síðasta varnarmanni, Ásgeiri Guðmundssyni og fékk hann beint rautt að launum. Úr aukaspyrnunni skoraði Milan Lazarevic en boltinn átti þó viðkomu í varnarmanni.

Ekki fleira markvert gerðist í fyrri hálfleik og staðan því eitt mark gegn einu þegar gengið var til leikhlés. Hvatarmenn hófu síðari hálfleik af krafti en leikmenn BÍ/Bolungarvíkur lágu tilbaka og beittu skyndisóknum.

Á 51 mínútu slapp Lazarevic einn í gegn eftir langt útspark og átti skot sem markmaður BÍ/Bolungarvíkur varði út í teig þar sem Muamer Sadikovic tók frákastið en skaut framhjá úr úrvalsfæri.

Á 64 mínútu féll Muamer Sadikovic sóknarmaður Hvatar inn í teignum en dómari leiksins sá enga ástæðu til þess að flauta brot. Töldu leikmenn Hvatar að um augljóst víti hafi verið að ræða. Þremur mínútum síðar átti fyrirliði BÍ/Bolungarvíkur, Sigurgeir Gíslason, frábært hlaup upp völlinn og átti að lokum skot sem að sleikti stöngina.

Á 70. mínútu skoraði Lazarevic mark sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.
Mínútu síðar slapp Óttar Bjarnason hjá BÍ/Bolungarvík einn í gegn þegar bakvörður Hvatar var fjarri góðu gamni vegna meiðsla en Ohran í marki Hvatar sá við honum.

Á 72. mínútu slapp Sadikovic í gegnum vörn BÍ/Bolungarvíkur og vippaði yfir markmanninn en varnarmaður BÍ/Bolungarvíkur gerði vel og bjargaði á línu.
Virkilega fjörugur tíu mínútna kafli í síðari hálfleik. Á 83. mínútu átti Jónas Guðmannsson skalla rétt framhjá marki eftir fína sendingu frá Sigurði Pálssyni í liði Hvatar.

Það var svo á lokamínútu leiksins sem Andri Bjarnason komst einn innfyrir vörn Hvatar en Ohran í marki Hvatar varði glæsilega og bjargaði sínum mönnum frá síðbúnu marki.
Lokastaðan í leiknum því eitt mark gegn einu þar sem leikmenn Hvatar voru meira með boltann og áttu kannski heilt yfir meira í leiknum. Það verður þó ekki tekið af leikmönnum Bí/Bolungarvíkur að þeir börðust vel allan leikinn og áttu stórhættulegar skyndisóknir með Goran Vujic fremstan í flokki. Því verður að telja jafntefli nokkuð sanngjörn úrslit.

Maður leiksins: Milan Lazarevic Hvöt. Hljóp eins og vitleysingur allan leikinn, skoraði gott mark beint úr aukaspyrnu og var mjög hættulegur upp við mark andstæðingana.

Skot á mark:
Hvöt – 9
BÍ/Bolungarvík – 5

Hornspyrnur:
Hvöt – 9
BÍ/Bolungarvík - 2
Fótbolti.net, Blönduósi - Davíð Ingi Magnússon.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir