Hví gengur þú vogmær á grásendið land
Enn finnst vogmær í fjörunni við Sauðárkrók en stutt er milli frétta af þeirri mær. Sindri Rafn Haraldsson fann eina í fjörunni við Suðurgarðinn og tók hana með sér heim og setti í frystikistuna.
Að sögn Sindra veltir hann fyrir sér hvort hægt sé að stoppa furðufiskinn upp eða jafnvel súta roðið. Enga lyst hefur Sindri á því að prófa að matreiða hann.
Vogmærin er sjaldséður fiskur við Íslandsstrendur en síðustu misseri berast fregnir æ oftar að skepnu þessari á þurru landi. Ómögulegt er að geta sér til um ástæðu landgöngu fisksins því sárafáar rannsóknir hafa verið gerðar á lífsháttum vogmeyjarinnar. Hún getur orðið nokkuð stór eða um 3 metrar á lengd og heimkynni hennar eru í Norðaustur-Atlantshafi og hún virðist vera algeng allt í kringum Ísland, nema undan ströndum Norðausturland og Austurlands.
Sú hjátrú er tengd vogmeyjum, að berist slíkur fiskur á land sé mönnum hollast að flytja hann á haf út eða brenna með þeim hætti að reykinn leggi á haf út, annars megi búast við skipskaða.
Í Ferðabók Eggerts og Bjarna er gerð grein fyrir nafngift fisksins. Þar segir að það sé eðli vogmeyjarinnar að koma með flóðinu upp að landi í grunnum víkum og vogum, sérstaklega þar sem botngerðin er sendin. Hún er svo litfögur og mjúk að hún er kennd við mey.
Heimild: Vísindavefurinn
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.