Hver á sér fegra föðurland?

Hljómsveitin Árstíðir og trúbadorarnir Svavar Knútur og Helgi Valur munu í sumar gera víðreist um fósturjörðina og koma við í helstu bæjum og sveitum hringinn í kringum landið. Gengur tónleikaferðalagið undir nafninu "Hver á sér fegra föðurland?" en listamönnunum þykir einmitt mjög vænt um landið og vilja hvetja landsmenn til að skipuleggja ferðalög sín innanlands í sumar.

Listamennirnir munu koma fram í samkomuhúsum, kirkjum, félagsheimilum og öldurhúsum víða um land og leggja mikið upp úr því að kynna sér allt það besta sem landsfjórðungarnir hafa fram að færa.

Árstíðir hafa gert garðinn frægan undanfarin misseri og er skemmst að minnast þess að lag þeirra, Sunday Morning var valið vinsælasta lag Rásar 2 tvær vikur í röð á dögunum. Sveitina skipa þeir Daníel Auðunsson, Ragnar Ólafsson og Gunnar Már Jakobsson gítarleikarar, Jón Elísson píanóleikari og Hallgrímur Jónas Jensson sellóleikari. Árstíðir þekkjast ekki síst á ómfögrum röddunum í anda gullaldarþjóðlagarokks 8. áratugarins. Þeirra fyrsta plata kom út nú í júní og hefur hlotið góðar viðtökur.

Svavar Knútur söngvaskáld hefur getið sér gott orð sem forsprakki hljómsveitarinnar Hrauns, sem hefur sent frá sér tvær plötur undanfarin ár. Sveitin er ekki síst þekkt fyrir lögin Ástarsaga úr Fjöllunum, Komdu og Clementine en einnig hefur Svavar undanfarin ár gert víðreist sem trúbador og m.a. farið í tónleikaferðalög til Ástralíu, Þýskalands og víðar. Svavar Knútur gaf í vor út plötuna Kvöldvöku sem hefur hlotið frábæra dóma í fjölmiðlum en hún er einungis seld á tónleikum.

Helgi Valur er þekktur fyrir líflega framkomu sína og fjölbreytilegan stíl, en þessi óviðjafnanlegi spaugfugl hefur farið víða um land undanfarin ár. Helgi Valur gaf fyrir nokkrum árum út plötuna Demise of faith og vinnur nú að nýrri plötu sem heitir Electric Ladyboyland. Hann var valinn Trúbador Rásar 2 árið 2004 og hefur komið víða við síðan.

Stefnt er að því að halda í völdum byggðarlögum svonefndar blautföðurlandskeppnir eftir tónleika, þar sem karlar keppa um besta útlitið í blautum ullarsokkabuxum. Þessi keppni er í anda jafnréttishugsjónar og mun dómnefnd verða skipuð listamönnum og völdum dómurum úr röðum hins fegurra kyns.

Tónleikaferðalagið er dyggilega stutt af tónlistarsjóðnum Kraumi og Rás 2 og er hluti af Innrásinni, stuðningi Kraums við tónleikahald innanlands og árlegri tónleikaferð Rásar 2 um landið. Markmið Innrásarinnar er að auka við möguleika listamanna til tónleikahalds, gefa þeim færi á að koma sér og tónlist sinni á framfæri víðar en á höfuðborgarsvæðinu og efla tónlistarlíf á landsbyggðinni. Hugmyndin á bakvið átakið á sér meðal annars rætur í því að stundum virðist auðveldara fyrir listamenn og hljómsveitir að spila erlendis, frekar en hérlendis.  Stuðningur miðast oftar en ekki við útrásarverkefni.

Með Innrásinni er ætlunin að styðja listamennina beint og auðvelda þeim tónleikhald innanlands með fjárhagslegum styrk, ferða- og græjustuðning. Jafnframt er stefnt á að búa til gagnagrunn yfir tengiliði sem nýst geta listamönnum við skipulagningu tónleika úti á landi.

Dagskrá Tónleikaferðalagsins er svohljóðandi

25. júní fimmtudagur
Hveragerðiskirkja, Hveragerði
Tónleikar hefjast kl. 20

26. júní föstudagur
800 Bar Selfossi kl. 20
Tónleikar hefjast kl. 21

27. júní laugardagur
Stykkishólmskirkja, Stykkishólmi
Tónleikar hefjast kl. 15

Ólafsvíkurkirkja, Ólafsvík
Tónleikar hefjast kl. 21

28. júní sunnudagur
Flateyjarkirkja, Flatey
Tónleikar hefjast kl. 20

29. júní mánudagur
Sjóræningjasafnið á Patreksfirði
Tónleikar hefjast kl. 20

30. júní þriðjudagur
Tálknafjarðarkirkja, Tálknafirði
Tónleikar hefjast kl. 20

1. júlí Miðvikudagur
Hlaðan í Arnardal við Ísafjarðardjúp
Tónleikar hefjast kl. 20

2. júlí fimmtudagur
Hólmavíkurkirkja, Hólmavík
Tónleikar hefjast kl. 20

3. júlí föstudagur
Félagsheimilið Höfðaborg, Hofsósi
Tónleikar hefjast kl. 20
4. júlí laugardagur
Hljómsveitirnar heimsækja Siglufjörð og njóta þjóðlagahátíðarinnar þar í bæ.

5. júlí sunnudagur
Félagsheimilið, Grímsey
Tónleikar hefjast kl. 20

7. júlí þriðjudagur
Gamli baukur, Húsavík
Tónleikar hefjast kl. 20

8. júlí miðvikudagur
Egilsstaðakirkja, Egilsstöðum
Tónleikar hefjast kl. 20

9. júlí fimmtudagur
Hljómsveitirnar njóta rokkhátíðarinnar Eistnaflugs á Neskaupstað

10. júlí föstudagur
Úlfaldi úr Mýflugu, Hlaða í Mývatnssveit

11. júlí laugardagur
Græni Hatturinn, Akureyri
Tónleikar hefjast kl. 21

12. júlí sunnudagur
Café Rósenberg, Reykjavík
Tónleikar hefjast kl. 21

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir