Hvatarmenn unnu Magna í gærkvöldi
Hvöt tók á móti Magna Grenivík í gærkvöldi og hófu leikinn með norðanáttina í bakið og voru frá byrjun líklegri til að skapa sér eitthvað í þessum leik.
Þrátt fyrir það vantaði svolítið upp á ákveðni sumra leikmanna upp við markið og fóru mörg ákjósanleg færi forgörðum í fyrri hálfleik. Strax á 5. mínútu leiksins fékk Hvöt dauðafæri á markteig en markvörðurinn varði í horn. Nokkur góð færi litu dagsins ljós áður en Milan skoraði á 30. mínútu eftir góða sendingu frá Óskari Snæ. Muamer fékk síðan dauðafæri, einn á móti markmanni, mínútu síðar en skaut framhjá. Staðan í hálfleik var því 1-0.
Hvatarmenn héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og sóttu af krafti. Á 50. mínútu vörðu Magnamenn tvisvar á línu í sömu sókninni en inn vildi boltinn ekki. Upp úr þessu barst boltinn út á kantinn vinstra megin þar sem Gissur fyrirliði vann boltann af Magnamönnum lék upp að endamörkum og sendi boltann fyrir markið, þar var Muamer mættur og skallaði boltann örugglega í markið af stuttu færi.
Eftir þetta skiptust liðin á að sækja og bæði sköpuðu sér nokkur góð færi án þess að upp úr því kæmi mark. Það var hins vegar á 69. mínútu að Milan hljóp upp vinstri kantinn, lék á einn leikmann Magna komst inn í vítateiginn þar sem hann var tekinn niður og vítaspyrna réttilega dæmd. Úr spyrnunni skoraði Muamer örugglega og Hvatarmenn komnir í góða stöðu. Eftir þetta fengu bæði lið mjög góð færi til að bæta við mörkum en leiknum lauk án þess að fleiri mörk væru skoruð. Enn einn fíni leikurinn hjá Hvatarmönnum og þeir eru nú í öðru sæti deildarinnar með 11 stig, einu stigi á eftir Reyni Sandgerði.
/Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.