Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag...

Já, hún á afmæli í dag, sundlaugin okkar á Sauðárkóki. Húnahópurinn, sem eru þeir sundgestir sem mæta fyrstir í sund á morgnana, ákváðu fyrir nokkru síðan að afmælisdagur sundlaugarinnar 11. júní skyldi haldinn hátíðlegur ár hvert til að minna á hversu holl og góð hreyfing sundið er og ekki síst til að halda vakandi umræðunni um málefni laugarinnar og endurbætur sem gera þarf á henni.

 

Í afmælisveislunni í morgun gæddu sundgestir sér á afmæliskringlu og soðbrauði. Þessu var skolað niður með saklausu berjavíni. Síðan voru lesin ljóð sem flutu í vatninu, öllum að óvörum.  Hópurinn söng nokkur lög, sem er nýbreytni hjá hópnum og hefur verið ákveðið að halda áfram að syngja í pottinum, til dæmis á föstudagsmorgnum.

 

Að vísu gæti hljómburður verið betri því tónninn vill svolítið fara á flakk út í tómið. Við verðum samt að láta okkur pottana lynda til söngs, þótt betri hljómburður sé í sturtuklefunum, því ekki getur hópurinn sungið þar saman af augljósum ástæðum.

 

Einkunnarorð dagsins eru: Skelltu þér í sund í dag...og taktu einhvern með þér. Þú sérð ekki eftir því!

Fyrir hönd Húnahópsins. Bryndís Þ.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir