Hringdu í skóginn
Frá og með 1. júní nk. býður Skógrækt ríkisins gestum þjóðskóganna upp á skemmtilega viðbót við kyrrðina, fuglasönginn og þytinn í trjánum. Við stíga í skógunum standa nú staurar með símanúmeri sem hægt er að hringja í og hlusta á fróðleik eða skemmtun tengda umhverfinu.
Reykjarhólsskógur er einn af þjóðskógunum en hann er skógarreitur í umsjá Skógræktar ríkisins upp af byggðinnni í Varmahlíð. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði með merktum gönguleiðum. Fyrstu plönturnar í skóginum voru gróðursettar árið 1947 og nú skartar hann fallegum trjám og er birkið þar í meirihluta. Einkenni Reykjarhólsskógar eru hversu tegundum þar er blandað saman og að því leyti sker hann sig úr flestum ræktuðum skógum landsins.
"Hugmyndin er að veita gestum þjóðskóganna upplýsingar um skóginn sem þeir eru staddir í, án þess að þeir þurfi að fá með sér leiðsögumann eða lesa bækling," segir Esther Ösp Gunnarsdóttir, kynningarstjóri Skógræktar ríkisins. "Í skógunum er búið að koma fyrir stöplum með símanúmerum.
Þegar gengið er fram á staur er hægt að hringja í númerið og fá upplýsingarnar lesnar fyrir sig." Hver lestur er u.þ.b. 2-4 mínútur og gjaldið er það sama og í venjuleg símanúmer.´
"Við byrjum með nokkra staura í hverjum landsfjórðungi í sumar en þeim kemur svo til með að fjölga strax næsta sumar," segir Esther.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.