Hofsbót og Neisti bjóða 105 milljónir upp í íþróttahús

Íbúar á Hofsósi vilja stíga skrefið til fulls og fá íþróttahús við hlið Liljulaugar.

Fulltrúar frá Sjálfseignarstofnunarinnar Hofsbót og Ungmennafélaginu Neista komu á fund Byggðaráðs Skagafjarðar í gær og buðu sveitarfélaginu 105 milljónir upp í nýtt íþróttahús á Hofsósi.
Í ályktun frá hópnum segir; „Með tilliti til þeirra einstöku aðstæðna sem skapast hafa með hinni höfðinglegu gjöf Steinunnar Jónsdóttur og Lilju Pálmadóttur á sundlaug á Hofsósi hafa Ungmennafélagið Neisti og Sjálfseignarstofnuninni Hofsbót látið gera hagkvæmnismat á uppbyggingu íþróttahúss sem tengist hinni nýju sundlaugarbyggingu á Hofsósi. Umrætt mat hefur leitt í ljós tugi milljóna í sparnað með samnýtingu búningsaðstöðu og fleiri sameiginlegra þátta bæði hvað varðar stofnframkvæmd og rekstur. Ungmennafélagið Neisti og Sjálfseignarstofnunin Hofsbót vilja því leggja sitt af mörkum til að umræddur sparnaður náist og lýsa sig tilbúin til að gefa sem svarar 50% af kostnaði við uppbyggingu íþróttahúss á Hofsósi. Samkvæmt frumkostnaðaráætlun frá Verkfræðistofunni Verkís er gert ráð fyrir að kostnaður við framkvæmdirnar verði 210 milljónir króna. Umrædd gjöf nemur því um 105 milljónum króna og byggir hún annars vegar á peningaframlagi og hins vegar á vinnuframlagi. Sparisjóður Skagafjarðar hefur jafnframt gefið Ungmennafélaginu Neista og Sjálfseignarstofnuninni Hofsbót vilyrði fyrir 25 ára fjármögnun á þeim 105 milljónum króna sem eftir standa í samráði við Sveitarfélagið Skagafjörð. Tilboðsgjafar lýsa sig einnig fúsa til að taka að sér umsjón með framkvæmdinni með það að markmiði að íþróttahúsið verði gert fokhelt á árinu 2009 og framkvæmdum við húsið verði að fullu lokið í síðasta lagi haustið 2011.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir