Helga Björg fékk tveggja milljón króna styrk
Styrkir til atvinnureksturs kvenna til markaðssetningar erlendis á handverki og hönnun voru afhentir við formlega athöfn í Mýrinni í Kringlunni fimmtudaginn 18. mars sl. kl 14:00. Jafnframt var opnuð sýning í Mýrinni á þeim verkefnum sem hlutu styrk. Sýningin er liður í HönnunarMars sem stendur til sunnudagsins 21. mars.
Helga Björg Ingimarsdóttir ferðaþjónustu- og sauðfjárbóndi á Höfnum á Skaga í Austur Húnavatnssýslu er ein af þeim er hlaut tveggja milljón króna styrk en hún rekur fyrirtækið Úr hreiðri í sæng sem framleiðir íslenskar æðardúnsængur. Framleiðslan á sængunum fer alfarið fram á Höfnum á Skaga og er dúnninn afurð úr æðarvarpi á staðnum. Sængurnar eru saumaðar úr dúnheldu bómullarlérefti eða silki og eru til í fullorðins- og ungbarnastærðum en að auki er hægt að sérpanta stærðir. Fyrirtækið er með vottun frá vottunarstofunni Tún. Það uppfyllir kröfur um framleiðslu á náttúruafurðum og aðföngum til lífrænnar framleiðslu. Jafnframt hefur það vottun um sjálfbæra framleiðslu.
Markmið með þessum styrkveitingum er að styðja við undirbúning og framkvæmd markaðsaðgerða erlendis á handverki og hönnunarvörum.
Anna Kristín Gunnarsdóttir formaður stjórnar Byggðastofnunar og Hermann Ottósson forstöðumaður hjá Útflutningsráði Íslands afhentu styrkina og Iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir ávarpaði gesti.
HÉR er hægt að sjá þau verkefni er hlutu styrk að upphæð 2 milljónir króna hvert.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.