Hátíð á Hofsósi um næstu helgi

Frá Hofsósi

Þann 6. júní næstkomandi mun Vesturfarasetrið á Hofsósi standa fyrir viðamikilli hátíð til heiðurs fólki af íslenskum ættum í Ameríku. Gert er ráð fyrir um 100 gestum frá Vesturheimi auk fjölmargra Íslendinga sem munu taka þátt í hátíðarhöldunum eða nota tækifærið og hitta vini eða frændfólk á meðan hópurinn staldrar við á Hofsósi.

Dagskráin hefst kl. 14.00 með móttöku erlendu gestanna við þorpshliðið. Hópur ríðandi manna með þjóðfána Íslands, Kanada og Bandaríkjanna fer á undan rútunum niður að Pakkhúsinu þar sem sendiherrar Kanada og Bandaríkjanna ásamt Skólakór Kársness munu bjóða hópinn velkominn.

Gestirnir munu síðan skoða sýningar Vesturfarasetursins og stutt heimsókn verður gerð á Íslensku fánasaumastofuna.
Því næst verður farið í heimsókn á Listasetrið á Bæ, aðstaðan skoðuð og litið við í  glæsilegu hesthúsi á staðnum. Að því loknu verður kvöldverður í Félagsheimilinu Höfðaborg, flutt verða ávörp og síðan verður vönduð skemmtidagskrá undir leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar leikstjóra. Meðal þeirra sem fram koma eru:  Skólakór Kársness og Þórunn Björnsdóttir kórstjóri, Marteinn H Friðriksson organisti, Gunnar Eyjólfsson leikari og  fleiri.
Kynnir verður Helgi Ágústsson fyrrverandi sendiherra.

Áhugasömum er bent á að hægt er að panta miða á kvöldverð og kvöldskemtun í síma 453-7935 eða á hofsos@hofsos.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir