Háspenna í síðustu umferð Iceland Expressdeildar karla - Tindastóll með annan fótinn í úrslitakeppninni

 

Skagfirðingurinn og Körfu.is penninn, Rúnar Gíslason, hefur greint stöðuna í Iceland Expressdeildinni nú fyrir síðustu umferð en þrjú lið berjast um efsta sæti og fjögur lið, þar á meðal Tindastóll berjast um tvö síðustu sætin inn í úrslitakeppnina.

En svona greinir Rúnar þetta á karfan.is

- Það er óhætt að segja að spennan fyrir síðustu umferðina í Iceland Express deildinni sé óbærileg og ekki víst að hún hafi nokkurn tíman verið jafn mikil. Einungis tvö lið geta ekki færst um sæti en það eru falliðin tvö, Breiðablik og FSu. Tvö lið geta orðið deildarmeistarar, sex lið eru örugg í úrslitakeppni en fjögur lið keppa um síðustu tvö sætin.Förum aðeins yfir málin.
 
Sæti 1 til 3
Baráttan um þrjú efstu sætin er milli KR, Keflavíkur og Grindavíkur. Í síðustu umferðinni heimsækir KR Snæfell, Keflavík tekur á móti Hamri og Grindavík heimsækir ÍR. Fyrir leikina hefur KR 34 stig en Keflavík og Grindavík 32.
 
Fari svo að KR vinni Snæfell þá er KR deildarmeistari. Verði Keflavík og Grindavík jöfn, þ.e. vinni bæði eða tapi bæði þá endar Keflavík númer 2 og Grindavík númer 3.
 
Tapi hins vegar KR og bæði Keflavík og Grindavík vinna þá endar Grindavík númer 1, Keflavík 2 og KR 3. Tapi KR og Grindavík en Keflavík vinnur þá er KR númer 1, Keflavík 2 og Grindavík 3. Tapi hinsvegar KR og Keflavík en Grindavík vinnur þá verður Grindavík númer 1, KR 2 og Keflavík 3.
 
Sæti 4 til 6
Þá er það baráttan um sæti 4 til 6 sem er á milli Snæfells, Stjörnunnar og Njarðvíkur. Í lokaumferðinni tekur Snæfell á móti KR, Stjarnan fær Breiaðblik í heimsókn og Njarðvík fer á Selfoss og spilar við FSu. Liðin eru í dag eöll með 28 stig.
 
Fari svo að þau vinna öll eða tapa öll þá er Snæfell númer 4, Stjarnan 5 og Njarðvík 6. Eins er ef Snæfell vinnur og annað hvort hinna vinnur og hitt tapar. Snæfell verður því alltaf númer 4 vinni þeir sinn leik. Tapi hins vegar Snæfell og bæði Njarðvík og Stjarnan vinna þá verður Stjarnan númer 4, Njarðvík 5 og Snæfell 6.
 
Sæti 7 til 10
Þá er komið að baráttunni um síðustu tvö sætin í úrslitakeppninni en hún er á milli Tindastóls, ÍR, Hamars og Fjölnis. Í síðustu umferðinni tekur Fjölnir á móti Tindastóls, ÍR á móti Grindavík og Hamar fer til Keflavíkur. Fyrir umferðina er Tindastóll með 16 stig en hin þrjú liðin með 14.
 
Vinni Tindastóll Fjölni þá eru þeir öruggir í 7. sætinu. Að þessu gefnu hefur Fjölnir tapað og fari svo að ÍR og Hamar tapi líka þá verður ÍR númer 8, Hamar 9 og Fjölnir 10. Vinni Tindastóll, ÍR og Hamar verður sama röð. Tapi hinsvegar Tindastóll þá fara hlutirnir að flækjast. Tapi Tindastóll með 14 stigum eða minna og ÍR og Hamar tapa verður Tindastóll númer 7, Fjölnir 8, ÍR 9 og Hamar 10. Tapi Tindastóll eða köllum það að Fjölnir vinni með 15 eða meira og ÍR og Hamar tapa þá endar Fjölnir númer 7, Tindastóll númer 8, ÍR 9 og Hamar 10.
 
Fari hinsvegar svo að Fjölnir og ÍR vinni og þá Tindastóll og Hamar tapi þá verður ÍR númer 7, Tindastóll 8, Fjölnir 9 og Hamar 10.
 
Vinni Fjölnir og Hamar og Tindastóll og ÍR tapa þá skiptir máli hversu stór sigur Fjölnis er, vinni þeiri með 1 eða 2 verður Tindastóll númer 7, Hamar 8 og Fjölnir 9. Vinni Fjölnir með 3 til 10 verður Hamar númer 7, Tindastóll 8 og Fjölnir 9. Vinni Fjölnir með 11 til 16 verður Hamar númer 7, Fjölnir 8 og Tindastóll 9. Vinni Fjölnir hinsvegar stærra verður Fjölnir númer 7, Hamar 8 og Tindastóll 9.
 
Spennan verður því gríðarleg á fimmtudagskvöldið og ljóst að KKÍ menn þurfa að skipuleggja plan B fyrir afhendingu á bikarnum fyrir deildarmeistaratitilinn, annað hvort verður hann afhentur í Stykkishólmi eða Seljaskóla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir