Guðmundur Óli hættir í löggunni
Í dag sinnir Guðmundur Óli Pálsson sinni síðustu vakt samkvæmt uppsettri vaktskrá hjá Lögreglunni á Sauðárkróki en formlega lætur hann af störfum nú um mánaðarmótin.
Guðmundur hóf störf sem héraðslögregluþjónn árið 1971 og vann sem afleysingamaður ´73-´74 og hefur verið fastráðinn lögregluþjónn frá 1. apríl 1974. Guðmundur er fyrsti lögreglumaðurinn hjá embættinu á Sauðárkróki sem hættir vegna aldurs.
Að sögn Guðmundar hefur dagurinn verið ánægjulegur. Í morgun var hann til aðstoðar nemendum Árskóla við gangbrautavörslu við skólann á Skagfirðingabraut og þar á eftir aðstoðaði hann við skrúðgönguna sem nemendur fjölmenntu í. Hvernig árin hafa verið í Lögreglunni svarar Guðmundur. –Ég hef sloppið vel og kvarta ekki og reynt að vera sjálfum mér samkvæmur.
En hvað skyldi taka við eftir daginn í dag. –Ég hef nóg fyrir stafni. Iðjuleysi hrjáir mig ekki, segir Guðmundur og bætir við brosandi. –Ég er léttadrengur hjá konunni í Efnalauginni við Borgarflöt sem er hálft starf. Svo á ég nokkrar kindur sem þarf að sinna.
Guðmundur verður kvaddur af starfsfélögum sínum í kaffisamsæti í Ljósheimum í dag og vill Guðmundur koma á framfæri góðri kveðju til allra Skagfirðinga sem og annara er hann hefur haft kynni af í gegn um árin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.