Góð ferð í Austurdal
Ferðafélag Skagfirðinga lagði í skemmtilega ferð þann 20.júní síðastliðinn. Fararstjóri í þeirri ferð var Bjarni Marónsson og honum fylgdu 16 manns. Upphafsstaður ferðarinnar var Gilsbakki í Austurdal. Hjörleifur Kristinsson var síðasti ábúandi á Gilsbakka en býlið fór í eyði eftir að Hjörleifur lést árið 1992.
Leiðin lá austur að hinu hrikalega klettagljúfri Merkigili. Gilið er allt að 100 metra djúpt og fyrr á tímum lá aðal samgönguleið bæjanna austan megin í Austurdal í gegnum gilið, allt til ársins 1961. Tekin var góður tími til þess að njóta útsýnis yfir þessa hrikalegu klettadrunga. Eftir gott stopp var haldið að bænum Merkigili. Þar var tekið rausnarlega og vel á móti okkur með kaffisopa og súkkulaði. Gengið var í bæinn og spjallað við gestgjafana sem komnar voru að sunnan til þess að hugsa um viðhald bæjarins. Hópurinn fór frá Merkigili í sæluvímu eftir gott spjall við fyrrum heimamenn Merkigils.
Stefnan var tekin að Ábæjarkirkju eftir kaffisopann, en stuttu fyrir kirkjuheimsóknina fékk hópurinn að njóta visku Helga Páls Jónssonar jarðfræðings á náttúrustofu og ferðafélaga. Helgi og Bjarni gátu saman frætt okkur skemmtilega um sögu og náttúru þessa stórfenglega dals.
Þegar í Ábæjarkirkju var komið voru nestispakkarnir opnaðir á ný, hlustað á sögur af Ábæjarskottu og síðasta sóknarbarni Ábæjarsóknar, Helga Jóns.
Klukkan var að slá kvöldmatarleyti og það var farið að glitta í bíl Sigga frá Bakkaflöt. Því drifu ferðalangarnir sig af stað og tilhlökkunin fyrir síðasta kafla ferðarinnar var mikil. Sjálfur Skatastaðakláfurinn var eftir. Við röltum með jökulsá röndinni og þegar komið var að kláfnum skiptu menn sér niður í kláfinn.
Ferðin var afar góð í alla staði og ferðalangarnir mjög sáttir eftir sólríkan og góðan dag. Strax voru menn farnir að skipuleggja aðra ferð í Austurdalinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.