Gert ráð fyrir að í haust verði leikskólapláss á Sauðárkróki orðin 180 talsins
Þegar nýji leikskólinn á Sauðárkróki verður tekinn í notkun í haust má gera ráð fyrir að heilsdagspláss á leikskólum á Sauðárkróki verði orðin 180 talsins. Eins og staðan er í dag lítur út fyrir að þörfin fyrir pláss fyrir börn frá eins árs aldri sé 164 pláss.
Gert er ráð fyrir að yngstu tveir árgangarnir, eins og tveggja ára, verði í Glaðheimahúsinu á 3 deildum, en elstu þrír, þ.e. þriggja, fjögurra og fimm ára, verði í nýja húsinu á 6 deildum. Samtals verða því 9 deildir við sameinaðan leikskóla. Sé miðað við 20 börn á hverri deild verða heilsdagsplássin því 180 samtals. Í dag eru fjöldi barna á leikskólum 157 en 46 þeirra (6 ára) fara út í vor og þá eru eftir 111 sem verða áfram í haust. 53 börn eru á biðlista frá eins árs aldri, og þá lítur út fyrir að samtals sé þörf fyrir 164 pláss fyrir börn frá eins árs aldri, en þessir árgangar, þ.e fædd 2005-2010 (þ.e. þau sem nú þegar eru fædd á þessu ári) er 189 börn. Ekki er þó víst að allir foreldrar eins árs barna séu búnir að skrá börn sín á biðlista og alls ekki víst að allir vilji nýta sér leikskólapláss fyrir börn sín svo ung, þótt þeir séu búnir að skrá þau.
Að sögn fræðslufulltrúa velja margir að hafa svo ung börn hjá dagmæðrum þannig að mikilvægt sé að taka biðlistum fyrir yngstu börnin með fyrirvara. Einnig beri að athuga að leikskólahverfið taki einungis til Sauðárkróks en ekki sveitarinnar umhverfis bæinn og því gæti fjöldi barna á árgöngum á leikskólaaldri verið fleiri en 189 börn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.