Fræðsluverkefninu Eflum byggð lokið
Námskeiði Farskólans, Eflum byggð, sem starfrækt hefur verið í vetur á Blönduósi og á Skagaströnd var slitið við hátíðlega athöfn mánudaginn 15. mars á Blönduósi.
Markmið verkefnisins Eflum byggð er að auka starfshæfni íbúanna með því að skapa jákvætt andrúmsloft í samfélaginu gagnvart breytingum og þróun í atvinnulífinu, að skapa jákvætt andrúmsloft gagnvart fræðslu í samfélaginu og að auka námsgæði og aðgang að áframhaldandi menntun í samfélaginu.
Einnig var stefnt að því að hjálpa fólki til að sjá tækifæri í nýjum atvinnugreinum eins og ferðamálum. Lögð var áhersla á að gera allt námsumhverfið sem áhugaverðast og sníða það að þörfum fullorðinna námsmanna óháð aldri, kynferði eða búsetu.
Ákveðið var að halda námskeið í Austur-Húnavatnssýslu; á Blönduósi og nágrenni. Ástæðan var meðal annars sú að Blönduósbær hefur búið við viðvarandi fólksfækkun undanfarin ár. Samkvæmt skýrslunni „Byggðarlög með viðvarandi fólksfækkun“ fækkaði íbúum á Blönduósi um 23% á árunum 1991 – 2006 en í skýrslunni segir ennfremur að tækifærin á svæðinu felist meðal annars í ferðaþjónustu og iðnaði.
Sjá nánar á vef Farskólans.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.