Fólkið brást en stefnan ekki

Helsta niðurstaða endurreisnarskýrslu Sjálfstæðisflokksins sem gerð var undir yfirumsjón Skagfirðingsins Vilhjálms Egilssonar var að stefna flokksins væri í góðu lagi en fólkið hefði brugðist. Það er því rökrétt framhald að minni spámenn flokksins í Skagafirði skyldu fara eftir leiðsögn flokksforystunnar og skipta út öllum efstu mönnum á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði sem hafa borið uppi og varið sjálfstæðisstefnuna.

Ég er ekki sammála þessu mati þar sem ég tel fólkið í flokknum vera eins og gengur og gerist, hvorki verra né betra en almennt gerist. Það sem brást var stefna spilltrar forystu Sjálfstæðisflokksins sem fól í sér einkavinavæðingu, mannréttindabrot í sjávarútvegi, skuldasöfnun, óráðsíu og útþenslu hins
opinbera. Flokkar sem hafa lent í því að stefna þeirra hafi rústað samfélögum og valdið eyðileggingu hafa venjulega endurskoðað stefnu sína eða þá jafnvel verið lagðir niður.

Það kemur verulega á óvart að sjá hve margt velmeinandi fólk er tilbúið að leggja nafn sitt við lista og óbreytta stefnu Sjálfstæðisflokksins sem rústaði íslensku samfélagi á valdatíð sinni.  

Nú er spurning hvort að oddvitinn, Jón Magnússon og hans meðreiðarsveinar og -meyjar munu boða iðrandi bót og betrun eða áframhald gjaldþrota „Sjálfstæðisstefnu“?

Sigurjón Þórðarson
Formaður Frjálslynda flokksins

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir