Fiskverslun opnuð á Blönduósi
Fiskbúðin Fisk á disk var opnuð á Blönduósi sl. þriðjudag. Verslunin er til húsa á Efstubraut 1, við hliðina á Líflandi, í húsi sem Pípulagnaverktakar áttu en á sínum tíma var Rækjuverksmiðjan Særún þar til húsa og seinna Laxasetrið.
Blaðamaður leit við í versluninni í gær og hitti fyrir hjónin Sighvat Steindórsson og Ingunni Maríu Björnsdóttur sem eiga verslunina. Að þeirra sögn voru viðtökurnar langt umfram væntingar en fullt var út úr dyrum hjá þeim fyrstu tvo dagana sem verslunin var opin. Boðið er upp á ýmsar tegundir af fiski, allt eftir því hvað er á markaðnum hverju sinni. Má þar nefna löngu og steinbít, þorsk og ýsu, lax og bleikju svo eitthvað sé nefnt. Þá verður einnig boðið upp á fisk í marineringu og ekki má gleyma steiktu fiskibollunum en fyrsta daginn seldust hvorki meira né minna en tólf kíló af þeim. Hér er því greinilega um kærkomna nýjung að ræða í verslanaflóruna á svæðinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.