Ferðaþjónustufólk á Norðvesturlandi!
feykir.is
Skagafjörður, Austur-Húnavatnssýsla, Vestur-Húnavatnssýsla
07.04.2010
kl. 15.48
Aðalfundur Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra verður haldinn á Kaffi Krók á Sauðárkróki þriðjudagskvöldið 13. apríl kl. 20:00. Fundurinn mun hefjast með venjulegum aðalfundarstörfum en að þeim loknum tekur við dagskrá sem snýr að stefnumótunarmálum ferðaþjónustunnar á svæðinu. Stjórn ferðamálasamtakanna hefur ákveðið að leiða ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi vestra saman til að vinna að stefnumótun ferðaþjónustunnar fyrir svæðið. Þessi vinna mun að mestu leyti fara fram næsta haust og vetur en mun þó hefjast á aðalfundi samtakanna. Því er mjög mikilvægt að sem flestir mæti og taki þátt í verkefninu frá upphafi. Á fundinum verða haldin tvö framsöguerindi : - Ásbjörn Björgvinsson frá Markaðsskrifstofu Norðurlands fjallar um stöðuna í dag, möguleika svæðisins og tækifæri tengd auknu millilandaflugi til Akureyrar. - Sigurður Atlason galdramaður af Ströndum og formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða mun fjalla um mikilvægi stefnumótunar fyrir ferðaþjónustu og skýra frá stefnumótunarvinnu sem verið hefur í gangi á Vestfjörðum sl. ár. Að erindunum loknum mun Hjördís Gísladóttir framkvæmdastjóri VNV stýra hópavinnu og umræðum um stefnumótun fyrir Norðurland vestra. Til þess að efla þessa mikilvægu atvinnugrein enn frekar og sækja fram hér á Norðurlandi vestra þurfa ferðaþjónustuaðilar á svæðinu að vinna saman og ákveða í hvaða áttir á að stefna. Þannig sköpum við okkur góðan grundvöll fyrir samstarfi jafnt við opinbera aðila sem og okkar á milli. Hér á svæðinu eru mjög margir og smáir aðilar í ferðaþjónustu og við þurfum sameiginlegt átak til þess að fá ferðamenn til að sækja til okkar og hafa hér viðdvöl. Þannig styrkjum við rekstrargrundvöll fyrirtækjanna og aukum arðsemi okkar fyrirtækja. Takið kvöldið frá og mætið til leiks í stefnumótunarvinnuna!!!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.