Endurreisn íslensks samfélags brýnni en aðildarviðræður við Evrópusambandið
Félag vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Skagafirði minnir á samþykktir flokksins og yfirlýsingar fyrir nýliðnar alþingiskosningar þar sem alfarið er hafnað Evrópusambandsaðild og ítrekað að hagsmunum Íslendinga sé best borgið utan sambandsins. VG er eini flokkurinn sem á sæti á alþingi sem hefur frá upphafi talað skýrt í þessum efnum.
Því skorar félagið á þingflokk VG að beita sér gegn því að frekari skref verði stigin í átt til Evrópusambandsaðildar og hafna þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um aðildarviðræður.
Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá hruni íslensks efnahagslífs hafa alþingismenn og stjórnvöld nú þegar sóað of miklum tíma og orku í umræðu um Evrópusambandsaðild og hefur það komið niður á öðrum og brýnni verkefnum til samfélagslegrar endurreisnar. Á sama tíma og til stendur að fara í sársaukafullan niðurskurð á fjárveitingum til grunnstoða íslensks samfélags og velferðarþjónustu skýtur það skökku við ef hluti fjármuna sem þannig eru sparaðir verða notaðir til að fjármagna mjög kostnaðarsamar aðildarviðræður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.