Dagskrá um ævi og ritverk Elínborgar Lárusdóttur í Miðgarði
Sól í Hádegisstað, dagkrá um ævi og ritverk Elínborgar Lárusdóttur verður í Miðgarði 19. júní og hefst klukkan 13:00. Þar fjalla sonadætur Elínborgar, Birna Kristín Lárusdóttir, þjóðfræðingur og Þóra Björk Jónsdóttir, menntunarfræðingur um æviferil ömmu sinnar og fræðimennirnir Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur og Jón Ormar Ormsson, dagskrárgerðarmaður fjalla annars vegar um konurnar í verkum Elinborgar og hins vegar um spíritistann og skrif um dulræn málefni.
Lesið verður úr verkum skáldkonunnar og sýning verður á munum og myndum úr fórum hennar. Enginn aðgangseyrir.
Elínborg fæddist 12. nóvember 1891 að Tunguhálsi, Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. 15 ára gömul fór hún í Kvennaskólann á Blönduósi og síðan í Kennaraskólann í Reykjavík. Hún bjó meirihluta ævi sinnar í Reykjavík og lagði stund á ritstörf.
Hún gaf á rithöfundaferli sínum út yfir 30 bækur og voru verk hennar fjölbreytt. Helst má nefna sögulegar skáldsögur hennar, sem höfðu skagfirskt mannlíf og náttúru sem viðfangsefni. Hún fjallaði einnig mikið um dulræn fyrirbæri og sálarrannsóknir, sérstaklega á síðari hluta rithöfundarferlis síns. Elínborg lést 1976, þá 85 ára gömul. Sama ár kom síðasta bók hennar út.
Elínborg var ástsæll og mikið lesinn höfundur á sínum tíma, en ekki áttu verk hennar uppi á pallborði hjá menningarvitum samtímans þegar þau komu út. Það á hún sammerkt með mörgum kvenrithöfundum sem stigu fram á ritvöllinn á fyrrihluta síðustu aldar og fram yfir hana miðja.
Elínborgu og verkum hennar hefur ekki verið gerð mikil skil, hvorki af bókmenntafræðingum né öðrum.
Dagskráin er styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra og Sveitarfélaginu Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.