Dagmæður styrktar til kerrukaupa
Byggðaráð hefur ákveðið að styrkja dagmæður á Sauðárkróli til kaups á kerruvögunum fyrir börn sem þær hafa í gæslu. Hverri dagmóður sem hyggst starfa næsta vetur standi þannig til boða 50.000 kr. styrkur til kerrukaupa. Þær sem þegar hafa keypt kerru fá samsvarandi styrk.
Þá liggja fyrir upplýsingar frá tæknisviði að unnið hafi verið í samvinnu við dagmæður um betrumbætur á leiksvæði milli Skagfirðingabrautar og Hólavegar, með leiktækjum sem henta ungum börnum. Virðast þau mál í farvegi. Áfram er unnið að endurbótum á leikvöllum skv. matsskýrslu þar um og áætlun til lengri tíma.
Dagmæðrum stendur til boða afmarkaður aðgangur að lóðum leikskóla að höfðu samráði við viðkomandi leikskólastjóra og þeim stendur til boða að nýta aðstöðu í Húsi frítímans eins og þær hafa óskað eftir.
Með þessum aðgerðum telur sveitarfélagið að komið hafi verið til móts við dagmæður sbr. viðræður við þær undanfarna mánuði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.