Barokkhátíð á Hólum
Um næstu helgi verður að Hólum í Hjaltadal haldin barokkhátíð en þar er á ferðinni nýstofnuð Barokksmiðja Hólastiftis. Að henni stendur Hóladómkirkja, Akureyrarkirkja, Kammerkórinn Hymnodia og áhugafólk um barokktónlist og barokktímann á Íslandi.
-Hátíðin verður á hófsömum nótum þetta fyrsta skipti enda erfitt að afla styrkja og kannski skynsamlegt að byrja smátt en hugsa stórt, segir Pétur Halldórsson barokkari og dagskrárgerðarmaður hjá Útvarpi Norðurlands. -Á föstudagskvöld verður kvöldvaka í Auðunarstofu þar sem Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup segir frá Hólastað á tímum barokksins, ég segi aðeins frá hugmyndinni um barokksmiðju og smíði sambyggðs sembals og orgels sem Barokksmiðjan ætlar að ráðast í. Ingibjörg Björnsdóttir danskennari kynnir barokkdansa og væntanlega verða einhver tónlistaratriði. Loks geta þeir sem vilja gengið upp í Gvendarskál sem er í fjallinu Hólabyrðu ofan Hólastaðar. Þar mega hljóðfæraleikarar og söngvarar þenja sig að vild ef áhugi er fyrir því.
Á laugardag heldur Ingibjörg Björnsdóttir námskeið í barokkdansi, Marta Guðrún Halldórsdóttir heldur meistaranámskeið í barokksöng og Eyþór Ingi Jónsson, organisti og kórstjóri, talar um talnaspeki barokksins. Á meðan á námskeiðunum stendur æfa tónlistarhópar sem þátt taka í hátíðinni efni sem flutt verður á tónleikum á sunnudaginn. Á laugardagskvöld verður barokkkvöldverður í Hólaskóla og dansaður barokkdans á eftir.
Klukkan ellefu á sunnudag verður barokkmessa í Hóladómkirkju og klukkan tvö hátíðartónleikar þar sem þátttakendur í barokkhátíðinni koma fram með það efni sem æft hefur verið. Góður hópur hljóðfæraleikara hefur tilkynnt þátttöku sína og söngfólk sömuleiðis, meðal annars lunginn úr Hymnodiu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.